Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 15:50:04 (923)

1995-11-16 15:50:04# 120. lþ. 33.11 fundur 147. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjárhæðir, sérstakur tekjuskattur, frádráttur lífeyrisþega o.fl.) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[15:50]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að endurtaka það svo ekki verði neinn misskilningur að með þessu frv. er verið að frysta þær fjárhæðir sem notaðar voru á þessu ári við álagningu bæði hvað varðar barnabætur, vaxtabætur, persónuafslátt og sjómannaafslátt. En það er ekki gert varðandi hátekjuskatt heldur er fjárhæðin hækkuð um 11% eða svo eins og ég gat um, fyrir einstakling úr 2.494.000 eins og fjárhæðin var við álagningu á þessu ári og á að miðast við 2.806.000 kr. tæplega. Þar er því ekki frysting, það er hækkun. Hæstv. ráðherra á erfitt með að bera það til baka.

Hvað varðar fjármagnstekjuskattinn þá höfum við einmitt verið upplýstir um stöðu þessa máls í fjármagnstekjuskattsnefndinni af fulltrúa Alþb. í þeirri nefnd. Það er ljóst að einhver vandræði eru í þessu máli sem verður að teljast heimilisböl hæstv. fjmrh. Það eru engin vandræði í málinu af hálfu fulltrúa okkar né heldur er mér kunnugt um að það séu nein vandræði í málinu af hálfu fulltrúa annarra þingflokka stjórnarandstöðuflokkanna. Hæstv. ráðherra verður því einfaldlega að tala við sína menn og gera þeim grein fyrir því að ríkisstjórnin hefur önnur markmið en þau að þeir þvælist fyrir góðum málum í nefnd.

Ég vil svo að lokum minna hæstv. ráðherra á að það er ekki bara í þessu máli sem góð áform hafa ekki gengið eftir hjá honum eða ríkisstjórn hans. Þegar ríkisstjórnin tók við á vordögum 1991 var yfirlýst stefna þeirrar ríkisstjórnar í ríkisfjármálum að ná hallanum niður á tveimur árum eða ná jafnvægi á árinu 1993. Við sáum það fyrr í dag þegar við ræddum ríkisreikning fyrir árið 1993 að þar var methalli í ríkisbúskapnum.