Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 15:54:45 (925)

1995-11-16 15:54:45# 120. lþ. 33.11 fundur 147. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjárhæðir, sérstakur tekjuskattur, frádráttur lífeyrisþega o.fl.) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[15:54]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hygg að ráðherrann hafi eiginlega skotið sjálfan sig niður áðan. Hann vitnaði í það sem kemur fram og staðfestir að það er önnur meðferð við frystingu frítekjumarks fyrir hátekjuskatt en á öðrum fjárhæðum. Þær eru frystar eins og þær standa nú á árinu 1995 við álagningu. Þær eiga að vera þannig áfram á næsta ári óbreyttar frá því við álagningu núna. Hins vegar á fjárhæðin varðandi sérstakan tekjuskatt að taka breytingum og verða önnur á næsta ári en er á þessu ári. Hæstv. ráðherra vitnar réttilega til þess sem segir í greinargerð með frv. að það miðist við verðálagningu sérstaks tekjuskatts á næsta ári. Það sé ekki á þessu ári eins og það ætti að vera ef sömu forsendur ættu að gilda um það og aðrar fjárhæðir.

Að öðru leyti er óþarft að fjölyrða um andsvarið, það var komið niður í þetta eina atriði. Mér þykir leitt að þurfa að hryggja hæstv. fjmrh. með því að því miður er það svo að á árinu 1993, árinu sem átti að vera hallalaust hjá þáv. ríkisstjórn og fjmrh., er hallinn rúmlega 19.000 millj. kr. og því verður ekki neitað að það er methalli.