Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 15:56:40 (926)

1995-11-16 15:56:40# 120. lþ. 33.11 fundur 147. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjárhæðir, sérstakur tekjuskattur, frádráttur lífeyrisþega o.fl.) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[15:56]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Vestf., Kristinn H. Gunnarsson, spyr hver standi á móti fjármagnstekjuskatti. Það er ekki furða þótt hann spyrji því þetta hefur verið í umræðunni í fjölda ára, hjá fjölda flokka og hjá fjölda ríkisstjórna. Ég held að það sé heilbrigð skynsemi sem stendur á móti þessu. Sparnaður einstaklinga hér á landi er miklu minni en gengur og gerist víða um lönd. Ég bar þetta einu sinni saman við Þýskaland og það munaði ákaflega miklu. Það er heldur ekki furða að sparnaður sé lítill eftir að sparifjáreigendur höfðu verið flengdir í 20--30 ár með stórlega neikvæðum vöxtum, jafnvel mínus 20%, ár eftir ár. Fólki var hreinlega kennt að það borgaði sig ekki að spara. Þegar búið er að kenna heilu kynslóðunum þann hugsunarhátt að það borgi sig að skulda en borgi sig ekki að spara þá tekur fjölda ára að byggja upp sparnað og fá traust hjá sparifjáreigendum. Það kemur einmitt fram í nefndinni sem hefur fjallað mjög lengi um þetta mál að menn eru hreinlega hræddir við afleiðingu þess að leggja skatt á þann litla veikburða sparnað sem til er í landinu. Menn eru hræddir við að drepa hann endanlega. Ég held að það sem stendur á móti þessu sé hreinlega heilbrigð skynsemi og ekkert annað. Við höfum alið upp heilu kynslóðirnar sem hefur verið kennt að það borgi sig að skulda og borgi sig að eyða og við höfum kennt sömu kynslóðunum að það borgi sig ekki að spara og borgi sig ekki að leggja til hliðar.