Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 15:58:32 (927)

1995-11-16 15:58:32# 120. lþ. 33.11 fundur 147. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjárhæðir, sérstakur tekjuskattur, frádráttur lífeyrisþega o.fl.) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[15:58]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég rakti í ræðu minni gaf þáv. ríkisstjórn út yfirlýsingu í tengslum við gerð kjarasamninga vorið 1993 um að fjármagnstekjuskatti yrði komið á og hann tæki gildi 1. jan. 1994. Nú kemur hv. þm. Pétur H. Blöndal og segir að það sem standi á móti því að þessi áform nái fram að ganga sé heilbrigð skynsemi. Með öðrum orðum að ríkisstjórnin sem þá var og er enn a.m.k. til að hluta hafi ekki gefið út yfirlýsingu sína í takt við heilbrigða skynsemi. Það væri fróðlegt að fá álit hæstv. fjmrh. og hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar, sem þá var í ríkisstjórn, við þessari yfirlýsingu, hvort þeir séu sammála henni.

Ég er að hugsa um að reyna að nota skynsemina og vonandi heilbrigða eftir því sem ég best get. Þannig er að sparnaður hér á landi er mun minni en víða erlendis. Hann er allt að því helmingi minni þrátt fyrir að víðast hvar erlendis er sparnaðurinn skattlagður. Þá spyr ég: Af hverju er sparnaðurinn hér á landi svona lítill ef hann er ekki skattlagður? Af hverju er hann þá a.m.k. ekki jafnmikill og erlendis fyrst hann er ekki skattlagður og hefur þann ábata umfram sparnað erlendis? Hann hefur líka annað umfram sparnað erlendis, hann hefur verðtryggingu sem er ígildi vaxta. Það er því tvennt sem sparifjáreigendur innan lands hafa umfram sparifjáreigendur erlendis. Þá spyr ég hv. þm. Pétur H. Blöndal hvers vegna sparnaður er svona lítill hér á landi að hans mati þrátt fyrir þessa kosti.