Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 16:04:36 (930)

1995-11-16 16:04:36# 120. lþ. 33.11 fundur 147. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjárhæðir, sérstakur tekjuskattur, frádráttur lífeyrisþega o.fl.) frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[16:04]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins taka undir með nokkrum þeirra sem hér hafa talað og láta í ljós megnustu andúð mína á því að hér eigi enn að ráðast á þá lægst launuðu með skerðingum á barnabótaauka og afnámi á vísitölutengingu á bótagreiðslur yfirleitt. Mér virðist sambandsleysi ríkisstjórnarinnar við þá sem verstu kjörin hafa í þessu þjóðfélagi vera óbærilegt og sýnir að þarna er eitthvað mikið að. Að öðru leyti er það einkum tvennt sem ég vil spyrja hæstv. fjmrh. að. Í fyrsta lagi hvers vegna hann gerir ekki ráð fyrir tekjum af fjármagnstekjuskatti í fjárlagafrv. næsta árs og í þessu frv. þrátt fyrir yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um að taka upp fjármagnstekjuskatt. Í öðru lagi, hvers vegna hann fer ekki að tillögum ungra sjálfstæðismanna og fellir niður svokallaðan sjómannaafslátt og lætur útgerðarmenn um að borga sjómönnum laun. Eða telur hann að útgerðarmenn séu ekki færir um það eins og aðrir atvinnurekendur? Er ekki nóg að útgerðarmenn fái milljarða gefins í andvirði aflaheimilda árlega, þarf ríkið líka að greiða sjómönnum laun fyrir útgerðarmenn? Væri það ekki réttlátari leið í skattheimtu en að fara þá leið að láta þá sem minnst mega sín, sjúka, aldraða og barnafjölskyldur almennt, bera meiri byrðar?