Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 16:43:29 (940)

1995-11-16 16:43:29# 120. lþ. 33.11 fundur 147. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjárhæðir, sérstakur tekjuskattur, frádráttur lífeyrisþega o.fl.) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[16:43]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hefur áhyggjur af þeirri stöðu sem nú er í verðlagsmálum. Ég deildi þessum áhyggjum með honum og hann talaði um leiðir til að bregðast við henni. Ég hef nefnt við hann tvær leiðir, raunverulega bestu leiðirnar í þessum málum ef hann hefur áhyggjur af þeim. Það er að taka á matarverðinu og það er hægt að gera með tilteknum hætti. Fjmrh. veit það ósköp vel. Það kostar hins vegar átök í hans eigin flokki að gera það, en þetta er skynsamleg leið í efnahagsmálum. Í öðru lagi ætti að endurmeta tekjubreytingafrv. sem hér liggur fyrir, en það er hluti af fjárlagafrv. sem tengist greiðslum úr almannatryggingakerfinu. Ef hann tæki á þessum tveimur þáttum, rétti hann fram sáttarhönd í erfiðri stöðu í þjóðfélaginu.