Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 16:44:33 (941)

1995-11-16 16:44:33# 120. lþ. 33.11 fundur 147. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjárhæðir, sérstakur tekjuskattur, frádráttur lífeyrisþega o.fl.) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[16:44]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að halda því til haga fólki til glöggvunar að skattakóngurinn undanfarin ár, sá maður sem hefur rekið ríkissjóð með hvað mestum halla, er núv. hæstv. fjmrh. Engum öðrum hefur á þessari öld tekist jafnilla að stýra ríkisfjármálunum. Hann getur því ekki rekið af sér það orð að hafa sett met í árlegum hallarekstri á ríkisstjóði og reyndar væri hægt að taka lengra tímabil.

Það sem hann nefndi varðandi uppgjör ársins 1989 er auðvitað villandi. Bæði hann og aðrir vita að þar var um að ræða einfalda bókhaldsaðgerð þegar verið var að ganga frá ríkisreikningi fyrir árið 1989 og færa í einu lagi uppsafnaðar áfallnar skuldbindingar ríkissjóðs á mörgum áratugum og taka þær í einni tölu inn á eitt árið. Það er auðvitað ekki með neinum sanngjörnum rökum hægt að halda því fram að það tilheyri almennum ríkisrekstri þess árs. Reyndin varð sú að ríkissjóður var rekin með um fimm eða sex milljarða kr. halla það ár, ef ég man þessa tölu rétt. Þótt það sé að vísu ekki nógu gott, er það víðs fjarri þeim afrekum sem hæstv. fjmrh. státar af í þessum efnum.

Mér finnst líka rétt að vara við villandi framsetningu ráðherrans á skattbyrði og skattleysismörkum. Hann heldur því fram að skattbyrðin lækki að meðaltali og þá líka skattleysismörkin. Þetta gefur mjög villandi mynd því hann segir ekki það sem mestu máli skiptir. Hvar hækkar skattbyrðin og hvar lækkar hún? Það er ekki aðalatriðið þegar við metum áhrifin á einstaka tekjuhópa og þjóðfélagshópa hvernig meðaltalið lítur út heldur hverjir það eru sem verða að borga meira en þeir gerðu í fyrra og það eru þeir sem síst mega við því og um það standa hin pólitísku átök í málinu.