Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 16:51:56 (945)

1995-11-16 16:51:56# 120. lþ. 33.11 fundur 147. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjárhæðir, sérstakur tekjuskattur, frádráttur lífeyrisþega o.fl.) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[16:51]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svörin sem hann veitti við spurningum mínum og ég tel að þau séu skýr. Í fyrsta lagi er athyglisvert að þetta mál varðandi skattalega meðferð lífeyrisgreiðslna og lífeyrisiðgjalda, sem bar mjög hátt í síðustu kjarasamningum, skuli vera til meðferðar á nýjan leik með þeim hætti sem lýst hefur verið og þetta mál allt, án samráðs við verkalýðshreyfinguna. Það er satt að segja alveg ótrúlegt. Það þýðir að ríkisstjórnin virðist ekki ætla að efna til neinna alvörusamskipta við verkalýðshreyfinguna einmitt þessa dagana þegar verið er að tala um mjög erfiða stöðu kjaramála og yfirvofandi uppsagnir kjarasamninga hjá mjög stórum og fjölmennum verkalýðsfélögum. Ég tel að svar fjmrh. staðfesti ótrúlega vel það kæruleysi í umgengni við samtök launafólks sem hefur stundum birst í tíð núv. hæstv. ríkisstjórnar.

Varðandi ,,afnám sjálfvirkninnar``, sem hæstv. fjmrh. kallar svo, að verið sé að koma til móts við ákvæði nýju stjórnarskrárinnar vegna þess að þar sé kveðið á um það skattalög megi ekki vera íþyngjandi fyrir þegnana, þá snýr þetta mál alveg á haus vegna þess að til þess að koma í veg fyrir að skattalagaákvæði séu íþyngjandi fyrir þegnana án framsals þarf að setja inn ákvæði um sjálfvirka breytingu á þeim þáttum sem hér er um að ræða. Um sjálfvirka breytingu á barnabótaauka, á barnabótum, á persónuafslætti og öllum frádráttarþáttunum. Breytingarkvöðin á að vera í hina áttina. Það er það sem hæstv. nývinir ríkissjóðs þurfa að gera sér sérstaklega ljóst í málinu.