Veiðileyfagjald

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 11:24:45 (959)

1995-11-17 11:24:45# 120. lþ. 34.9 fundur 30. mál: #A veiðileyfagjald# þál., EKG
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[11:24]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Það er mjög eðlilegt að tillaga af þessu taginu sé rædd í sölum Alþingis svo fyrirferðarmikil sem umræða um veiðileyfagjald, auðlindaskatt eða gengisskatt sem stundum hefur verið notað um þetta hugtak, hefur verið í þjóðfélagi okkar. En í raun og veru þá er þetta dálítið sérkennileg umræða vegna þess að hún byggir að sumu leyti á hugmynd úr Birtingi þar sem talað er um bestan heim allra heima. En eins og þessi tillaga er sett fram þá gerir hún eiginlega ráð fyrir því að hún komi ekki við neinn. Þess vegna er mjög skiljanlegt eins og kom fram í máli síðasta ræðumanns að hugmynd af þessu tagi njóti stuðnings víða úti í þjóðfélaginu. Þetta er að því er virðist eins og tillagan er sett fram óskaplega þægileg leið til að afla fjár til ríkisins. Þessi tillaga gerir jú sérstaklega ráð fyrir því að þetta sé skattheimtuleið, ekki leið til fiskveiðistjórnunar heldur leið til að afla fjár til ríkisins sem er þar með talinn eigandi fiskimiðanna. En það kom líka fram í máli hv. 1. flm. þáltill. að jafnvel þessi fjáröflunarleið til ríkisins kæmi heldur ekki við útgerðina í landinu sem ætti þó að greiða þetta gjald þrátt fyrir það að ýmsir talsmenn auðlindaskattsins, veiðileyfagjaldsins, hafi rætt um tölur sem hlaupa á milljörðum og milljarðatugum. Ástæðan mun vera sú að það mun vera ætlunin í upphafi að beita hókus pókus aðferð, sem væntanlega kemur heldur ekki við nokkurn einasta mann í þjóðfélaginu, sem er sú að lækka gengi íslensku krónunnar, skapa þannig ,,nýjar tekjur`` í sjávarútveginum þannig að sjávarútvegurinn verði ekki heldur var við að borga 15 milljarða kr. eða þaðan af hærri tölu í ríkissjóð. Þannig að ég skil það mætavel að mörgum hugnist þessi leið. Þetta er leið sem bætir stöðu ríkissjóðs, þetta er leið sem kemur ekki við mig og þig, þetta er leið sem snertir ekki þann sem á að borga skattinn og hvers vegna í dauðanum skyldi þá einhver vera á móti því að fara þessa dásamlegu ljúfu leið að því að nánast að bæta allra hag án þess það komi við nokkurn mann? Þetta er tilboð sem ekki er hægt að hafna, svo vitnað sé í fleyg orð.

Hitt er það að hv. 1. flm. eyddi nokkrum tíma í sinni ræðu til þess að sverja það af að þetta væri í eðli sínu skattur þó gjaldið aflaði fjár til ríkissjóðs. Út af fyrir sig ætla ég ekki að fara í neinar stórar deilur um það. Ég vil aðeins minna á að þeir sem í öndverðu töluðu fyrir þessu máli, menn eins og Bjarni Bragi Jónsson og ýmsir fleiri, t.d. talsmenn iðnaðarins, voru aldrei neitt feimnir við að kalla þetta sínu rétta nafni. Þeir kölluðu þetta ekki veiðileyfagjald. Þeir kölluðu þetta auðlindaskatt. Skatt á auðlindir.

Út af fyrir sig finnst mér það vera fagnaðarefni sem fram kom í máli hv. 1. flm. og eru dálítil tímamót í þessari umræðu að þeir sem tala fyrir auðlindaskatti á íslenskan sjávarútveg viðurkenni að til þess að fylgja því rökrétt eftir þá beri að sjálfsögðu að taka upp sams konar skatt á aðrar auðlindir, svo sem vatnsorkuna og hitaorkuna í landinu. Ég átti t.d. í talsverðum skoðanaskiptum við einn ákafasta talsmann auðlindaskattshugmyndarinnar á sjávarútveg í fyrrasumar í Morgunblaðinu sem reyndi að sverja af sér að það væri eðlilegt að leggja auðlindaskatt á vatnsorkuna í landinu vegna þess að það gilti einhverju allt öðru máli þar um.

Af því að ég nefndi áðan að hv. þm. hefði talað um að þetta kæmi ekki við sjávarútveginn í landinu með því að tekjurnar til hans mundu aukast með því að í upphafi yrði fellt gengið, þá vil ég vekja athygli á að þrátt fyrir þessi orð hv. þm. er komist svo að orði, með leyfi virðulegs forseta, í grg. þáltill.: ,,Þegar illa hefur gengið í sjávarútvegi hefur gengið verið lækkað með afleiðingum sem allir þekkja.`` Síðan segir: ,,Þetta á ekki lengur við þegar gengisstefnan er sú að halda gengi sem stöðugustu, verðbólgu sem lægstri og freista þess að aðrar atvinnugreinar byggist upp við hlið sjávarútvegs.`` Þetta virðist því dálítið reka sig hvað á annars horn.

Tillagan er í sjálfu sér greinileg að því leytinu að það er gert ráð fyrir því að sjútvrh., eins og fram kom í máli hv. 4. þm. Vestf., skipi nefnd til að undirbúa málið, fjalla um spurninguna um veiðileyfagjald. Að vísu er niðurstaðan gefin. Það á að taka upp eitthvað sem menn kalla veiðileyfagjald. Nú er það svo að sá sem nú er hæstv. sjútvrh. skipaði nefnd til að fara yfir spurningar er lutu að fiskveiðistjórnuninni, þ.e. hina frægu tvíhöfða nefnd. Í þeirri nefnd sátu miklir áhugamenn um að leggja á veiðileyfagjald, auðlindaskatt, í íslenskum sjávarútvegi, ákafir og sérstakir talsmenn í Alþfl. sem hafa verið miklir áhugamenn um það að leggja á veiðileyfagjald. Við getum því sagt sem svo að hugmynd af þessu taginu hafi áður skotið upp kollinum og verið framkvæmd. En látum það liggja á milli hluta. Við skulum ímynda okkur að þessi nefnd setjist á rökstóla, hafi þá dagskipun að leggja á eitthvað sem heitir veiðileyfagjald. Og þá vandast málið. Því ef við lesum alla greinargerðina þá kemur á daginn að það sem menn kalla veiðileyfagjald er mjög á reiki. Í greinargerðinni, sem þingflokkur Þjóðvaka hefur samið, þá er hreinlega hvorki meira né minna en vakin athygli á því að það séu til sjö mismunandi hugmyndir sem menn kalla veiðileyfagjald. Alþingi er því með þessari tillögu ætlað að greiða atkvæði um eitthvað óljóst fyrirbrigði sem menn kalla veiðileyfagjald en enginn hefur hina lögmætu skilgreiningu á. Þar er um sjö hugmyndir að ræða. Við þyrftum því væntanlega að segja sem svo að Alþingi samþykkti að vísu að fara þessa leið, en menn vissu bara ekki út á hvað hún gengi.

[11:30]

Ég hef ekki tíma til þess að fara mjög rækilega efnislega yfir þessi mál. Ég vildi aðeins vekja athygli á því að hv. 1. flm. hefur áður fjallað um þetta mál, eins og eðlilegt er, hann hefur oft fjallað á athyglisverðan hátt um sjávarútvegsmál, m.a. í ákaflega góðri grein sem ég á sínum tíma hélt til haga. Hún birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 26. maí árið 1990 og þar fjallar hv. þm. m.a. um ýmsar leiðir, t.d. að selja kvóta á uppboði. Um þetta segir hv. 1. flm., með leyfi forseta:

,,Aðrar leiðir eru til eins og að selja kvóta á uppboði eða selja veiðileyfi til að þvinga fram hagkvæmni. Leiðir sem eru vart mögulegar í framkvæmd með vanmáttugt fjármagnskerfi, óljósa byggðastefnu og pólitíska fyrirgreiðslu við þær aðstæður. Halda menn virkilega að verði veiðileyfi seld af hálfu ríkisins, að jafnræði verði látið gilda fyrir öll byggðarlög og fyrirtæki?``

Virðulegi forseti. Ein spurning í lokin: Hvernig á að greiða þetta afgjald? Eiga allir Jónar að vera jafnir? Mér hefur skilist að til þess að ná hinu fullkomna hagræði, þá verði svo að vera, það sé t.d. ekki hægt að mismuna, ekki hægt að auðvelda aðgang trillusjómanna umfram frystitogaraeigenda vegna þess að þá er um leið búið að taka hvatann til hagræðingarinnar. Það verður því a.m.k. að svara þeirri spurningu mjög afdráttarlaust, þótt menn hafi ekki hugmynd um hvað þeir eiga við með þessu, hvort allir hafi jafnan aðgang að auðlindinni eftir að veiðileyfagjaldið er komið á.