Veiðileyfagjald

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 11:37:42 (962)

1995-11-17 11:37:42# 120. lþ. 34.9 fundur 30. mál: #A veiðileyfagjald# þál., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[11:37]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Einar Guðfinnsson, fyrrv. nemandi minn, sleppur ekki svona billega frá þessu máli. Staðreyndin er sú að það er alveg hárrétt sem fram kom í málflutningi hv. þm. Péturs Blöndals á sínum tíma, nefnilega þetta, að þegar ríkið skammtar borgurunum takmörkuð gæði, verða þau fémæti því þau ganga kaupum og sölum og eru verðlögð á markaðinum. Það er nákvæmlega þetta sem hefur gerst. Samkvæmt lögum er íslenska þjóðin eigandinn og ríkið starfar í umboði þjóðarinnar. Ríkið tekur að sér að skammta aðganginn að auðlindinni, þar með fær það markaðsvirði. Þetta gengur kaupum og sölum, þetta er leigt, þetta er selt, þetta er erft o.s.frv. Það er með öðrum orðum afleiðingin af skömmtunarstarfsemi ríkisins sem gefur því verð.

Þetta er náttúrlega einfalt og algilt og allir þeir sem hafa einhvern snefil af inngripi í markaðshagfræði, eins og ég veit að hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson hefur, viðurkenna þetta og skilja þetta. Það er auakaatriði að sjávarútvegsauðlindin er auðvitað meginauðlind, en innflutningur matvæla er minna mál. Þeim mun brýnna er að eigandi auðlindarinnar fái raunverulega í sinn hlut afgjald fyrir notkun eða nýtingarrétt annarra, sem ríkið hefur skammtað samkvæmt eigin geðþóttaákvörðun.