Veiðileyfagjald

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 11:41:12 (964)

1995-11-17 11:41:12# 120. lþ. 34.9 fundur 30. mál: #A veiðileyfagjald# þál., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[11:41]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lít ekki á það sem rök að þjóðin eigi ekki að hafa tekjur af meginauðlind sinni, hún eigi bara að hafa tekjur af því ef ríkið skammtar smátt en ekki ef ríkið skammtar stórt. Hún eigi bara að hafa tekjurnar af aukagetunni en ekki af meginauðlindinni. Ég sé engin rök í því og hlustaði ég þó mjög vel á hv. þm.

Ég vil aðeins taka það fram að í mínum huga er veiðileyfagjaldið ekki bara skattur. Veiðileyfagjaldið er líka stjórntæki vegna þess að það er hægt, eins og ég sagði í ræðu minni áðan, að útfæra veiðileyfagjaldshugmyndina þannig að hún sé jafnframt stjórntæki en ekki bara skattur. Það er því eðlilegt að þessu máli verði vísað til sjútvn.

Í þriðja lagi upplifir hv. þm. Einar K. Guðfinnsson málið eins og það sé verið að leggja gjald á sölu veiðileyfa í fyrsta sinn. Það er gert. Það eru mikil viðskipti sem eiga sér stað með aðganginn að sameign þjóðarinnar, fiskimiðunum. En þjóðin nýtur ekki þeirra viðskipta. Það eru þeir sem hafa aðgang að léni sem njóta þeirra og þeir borga óhemjuverð sín á milli í þessum viðskiptum. Það er því gersamlega út í hött að halda því fram að útgerðin geti ekki greitt afgjald til þjóðarinnar af þessari auðlind sem þjóðin á, þegar menn hafa í huga þau gríðarlegu viðskipti sem menn gera þar sín á milli með aðganginn að henni.

Það er heldur ekki rétt að ekki sé greitt afgjald fyrir aðrar auðlindir sem í hugum okkar eru eign samfélagsins. Ég veit ekki betur en það sé greitt afgjald fyrir t.d. þá orku sem við notum á heimilum okkar, hvort sem það er raforka eða önnur orka. Það afgjald rennur m.a. til þess að auka eignir viðkomandi fyrirtæja í opinberri eigu sem eru að selja okkur þessa þjónustu. Í sumum tilvikum, þegar um er að ræða opinberan rekstur af sambærilegu tagi, tekur ríkið til sín fé úr þeim rekstri í fjárlögum samkvæmt arðkröfum. Ég veit ekki betur en ríkið, Reykjavíkurborg og Akureyrarbær eigi Landsvirkjun og það sem við erum að greiða og aðrir notendur fyrir aðgang að þeirri orku rennur til eignamyndunar hjá þessu fyrirtæki sem er alfarið í opinberri eigu.