Veiðileyfagjald

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 11:46:02 (966)

1995-11-17 11:46:02# 120. lþ. 34.9 fundur 30. mál: #A veiðileyfagjald# þál., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[11:46]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hélt að hv. þm. vissi að þegar neytandi fer út í fiskbúð og kaupir sér ýsuflak þá borgar hann skatt til ríkisins. Sá skattur heitir virðisaukaskattur. Ég hélt hins vegar að hv. þm. vissi það jafnframt að ef þessi maður væri ekki að kaupa neyslufisk til eigin nota heldur færi í kvótabankann við hliðina og keypti kvóta fyrir milljónir eða milljónatugi frá öðrum útgerðarmanni sem ekki á hann heldur hefur afnotaréttinn af honum þá borgar hann ekki skatt. Ég verð að segja eins og er að ég sé ekki samhengið í því að maður skilji það ekki að það sem neytendur borga fyrir orkuverð er ekki bara framleiðslukostnaður orkunnar heldur leggst ofan á það eignamyndun í því fyrirtæki sem orkuna selur. Það er því lagt ofan á kostnaðarverð framleiðslunnar gjald sem menn geta kallað hvað sem þeir vilja, hvort sem þeir vilja kalla það auðlindaskatt eða afgjald til viðkomandi fyrirtækis sem ávallt er í opinberri eigu, sem stuðlar að eignamyndun þess. Í gegnum árin hefur þannig t.d. eign ríkisins, Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar í Landsvirkjun stórvaxið. Það er vegna þess að neytendur hafa verið að borga ekki bara framleiðslukostnaðarverð orkunnar heldur verið að borga niður fjárfestingar þessara fyrirtækja sem mynda eign hjá því opinbera. Það má því jafna þessu fyrirkomulagi til þess að það sé greitt með sama hætti afgjald til hins opinbera frá þeim sem nýta þann takmarkaða veiðirétt sem boðið er upp á. Og það er alveg rétt sem hv. þm. Pétur Blöndal sagði að verðmætið skapast þegar ríkið takmarkar aðganginn. Þá myndast verð á veiðiheimildunum sem ekki þekktist áður og þá er mjög eðlilegt að þeir sem njóta þeirra sérréttinda að fá aðgang að þessari þjóðareign umfram aðra greiði þjóðinni afgjald fyrir því að þarna er um að ræða verðmæti eins og glöggt má sjá í viðskiptum einstakra útgerðarmanna með kvóta. Kvóti er ekki verðlaus, kvóti er mikið verðmæti.