Veiðileyfagjald

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 12:09:57 (972)

1995-11-17 12:09:57# 120. lþ. 34.9 fundur 30. mál: #A veiðileyfagjald# þál., Flm. ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[12:09]

Flm. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. sjútvrh. skilur ekkert í þessu máli. (Gripið fram í: Hann vill ekki skilja.) Nei, ég held að það sé komið frá hjartanu, hann skilur þetta ekki. Ég lagði einmitt áherslu á það í ræðu minni að menn yrðu að reyna að skilja hvað er á bak við umræðuna um veiðileyfagjald. Hann skilur það ekki.

Í fyrsta lagi er um úthlutuð verðmæti að ræða. Úthlutunin fer fram ókeypis, það er ekki hægt að úthluta verðmætum af hálfu ríkisins með þessum hætti án þess að taka fyrir það gjald. Það er ósanngjarnt, það er óréttlátt. Þetta er fyrsta kennslustund, hæstv. sjútvrh. Hæstv. sjútvrh. verður að skilja þetta. Í öðru lagi erum við með aðrar aðstæður núna en við vorum með. Sjávarútvegurinn hefur greitt auðlindagjald. Ég sagði það í ræðu minni og ég kann afskaplega vel að tala fyrir hagsmunum sjávarútvegs og um sjávarútveg. Sjávarútvegurinn greiddi auðlindagjald með því að genginu var haldið mjög háu og þannig var hann skattlagður. Þær aðstæður eru ekki til núna. Við ætlum ekki að gera það vegna þess að okkur er lífsspursmál að byggja upp aðra atvinnuvegi. Í þriðja lagi er fiskveiðiarður að myndast í þessu kerfi vegna stýrikerfisins. Þetta fjallar ekki um stýrikerfið en það er að myndast fiskveiðiarður sem við sjáum ósköp vel á þeim peningum sem ganga kaupum og sölum fyrir veiðileyfi innan greinarinnar. Arðurinn er til. Það er sanngjarnt og eðlilegt og góð hagstjórn að hluta af arðinum, sem þjóðin á og fær líka með einum eða öðrum hætti, hv. 1. þm. Vestf., --- þjóðin hefur vissulega miklar tekjur af sjávarútvegi og það er vel. (EKG: Ég sagði það áðan.) Ég er að segja að hún gerir það. En hún þarf líka að fá tekjur af þeim hlut sem felst í því að úthluta veiðiheimildum. Ég er ósköp feginn því að hæstv. sjútvrh. treystir mér betur en fjmrh., við ættum kannski að hafa sætaskipti, en kannski nær traustið ekki svo langt. (Forseti hringir.) En við gerum tillögu um að gjaldið renni til sjávarútvegsins, greiði ákveðinn opinberan kostnað. Málið snýst ekki um það að við treystum stjórnmálamönnum betur til að fara með gjaldtöku. Þá hefur hæstv. sjútvrh. ekki skilið bofs í umræðunni og þá er miður ef hann fer með þennan málaflokk á þennan hátt.