Veiðileyfagjald

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 12:12:29 (973)

1995-11-17 12:12:29# 120. lþ. 34.9 fundur 30. mál: #A veiðileyfagjald# þál., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[12:12]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit mætavel að hv. 11. þm. Reykn. kann að mæla fyrir hagsmunum útgerðarfyrirtækjanna. Ég veit alveg hvaða hagsmuni hann sér í því að leggja á þennan skatt sem varaformaður stjórnar Granda. Það er alveg auðséð. Hann veit alveg að einstaklingsútgerðirnar í landinu eiga nú í mestri vök að verjast. Hann veit alveg að stóru fyrirtækin munu ganga á lagið þegar búið er að leggja þennan nýja kostnaðarauka ofan á og kaupa þær út úr rekstrinum. Hann veit þetta alveg. Ég er alveg klár á því að hann kann að tala fyrir þessum hagsmunum. Það geta alveg verið hagsmunir stórfyrirtækjanna að leggja slíkan kostnað á til þess að búa til þannig þróun af því að hann veit alveg hverjir eru veikastir í útgerðarrekstrinum í dag. Það er enginn ágreiningur milli okkar hins vegar að sjávarútvegurinn á að borga skatta. Ef það fara að myndast verulegar tekjur í sjávarútvegi á sjávarútvegurinn að sjálfsögðu að borga fulla skatta af þeim tekjum. Því miður er hagnaðurinn ekki nema 2% á þessu ári, það er allt of lítill hagnaður fyrir undirstöðuatvinnugrein landsmanna sem þarf sjálf að standa fyrir fjárfestingum og nýjungum í íslensku atvinnulífi. En þegar sjávarútvegurinn fer að græða á hann að sjálfsögðu að borga fullan tekjuskatt og það er eðlilegt að skattleggja tekjur sjávarútvegsins eins og tekjur annarra atvinnufyrirtækja.

Ef það gerist einhvern tímann að sjávarútvegurinn fari að græða svo mikið að gróðinn verði talinn óeðlilegur getur vel verið eðlilegt að setja á stighækkandi tekjuskatt í atvinnurekstrinum eins og gert er gagnvart einstaklingum þannig að hægt verði að lækka aðra skatta á móti. Það getur vel verið að það sé eðlileg skattapólitík þegar sá vandi kemur upp. En því miður er það svo að ég óttast að það sé of langt í það að slíkur hagnaður myndist í atvinnugreininni.