Veiðileyfagjald

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 12:25:02 (984)

1995-11-17 12:25:02# 120. lþ. 34.9 fundur 30. mál: #A veiðileyfagjald# þál., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[12:25]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Herra forseti. Vissulega metur fjmrh. það, ekki síst vegna þess að þetta var aðeins hluti af töpuðum kröfum sem urðu til í sjóðakerfinu þegar sjávarútvegurinn var studdur með því sjóðakerfi sem komið var upp 1988. Ríkissjóður situr uppi með verulegan hluta af þessum kröfum enn þá í formi skulda sem þarf að borga til útlanda á ári hverju.

Virðulegi forseti. Það kom fram í málflutningi hæstv. sjútvrh. að það er eðlilegt að fyrirtækin ráðstafi arðinum. Það hafa þau sýnt að þau gera miklu betur en ríkið mundi nokkurn tíma gera með því að sækja út til útlanda eins og þau hafa gert að undanförnu. Það er auðvitað lágmarksskilyrði að fyrirtæki í sjávarútvegi eins og önnur fyrirtæki greiði fyrir þann kostnað sem skattborgararnir leggja út til þess að hægt sé að halda úti þessari atvinnustarfsemi. Ég segi það ekki síst vegna þess að verið er afhenda útvegsmönnum auðlindina í þeim skilningi að þjóðin hefur falið þeim að ná sem allra mestum arði út úr auðlind hafsins.