Veiðileyfagjald

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 12:47:31 (990)

1995-11-17 12:47:31# 120. lþ. 34.9 fundur 30. mál: #A veiðileyfagjald# þál., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[12:47]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átti satt að segja von á dálítið ítarlegra svari. Ég hélt að eftir tíu ára feril Alþfl. í þessu máli lægi fyrir einhver gróf nálgun skulum við segja, ekki endanlegur útreikningur heldur gróf nálgun á því hvað við værum að tala um og hvað mundi gerast í blámóðu fjarskans þegar stóra stundin rynni upp, sem nálgast nú óðfluga að sögn hv. þm. Hins dregur hv. þm. mjög í land í þessu stutta andsvari sínu. Þetta á að ganga hægt fyrir sig í anda jafnaðarstefnunnar um málamiðlanir og annað sem við þekkjum úr hugmyndafræðilegri umræðu hv. þm., og eru auðvitað út af fyrir sig engin stórtíðindi. Hv. þm. talar um að hann ætli sér að fara mjög hóflega af stað.

Ég vildi gjarnan fá að heyra frá hv. þm. hvað hér er átt við. Þetta er allt of óljóst orðalag í svona stóru máli þegar fjallað er um mál sem Alþfl. hefur verið sérstakur talsmaður fyrir. Það gengur ekki að skilja við þessa umræðu þannig að það eitt komi út úr því að hv. þm. lýsir því yfir að það verði farið mjög hóflega í sakirnar, svona fyrst um sinn. Ég lít þannig á að ef menn ætla að svara kröfunni um réttlæti sem sett er fram í þáltill., þá hljóti hið endanlega markmið að vera verslun með aflaheimildir milli útgerðarmanna og að skattprósentan sé höfð nægilega há til þess að fæla menn frá slíkri verslun. Menn hljóta a.m.k. að hafa einhverjar hugmyndir um það í fyrstu atrennu hvað gengið verður langt og til hvers þetta muni loks leiða. Eins og fram hefur komið í máli margra, þá erum við að ræða um gríðarlega mikla verslun með aflaheimildir eins og viðgengst í dag. En það þarf auðvitað að liggja fyrir hvað menn ætla og geta ímyndað sér að þetta muni leiða til þegar stóra stundin rennur upp og draumsýnin mikla verður að veruleika eftir 10--20 ára stanslausa baráttu.