Veiðileyfagjald

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 13:14:26 (996)

1995-11-17 13:14:26# 120. lþ. 34.9 fundur 30. mál: #A veiðileyfagjald# þál., ÓRG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[13:14]

Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur oft gerst í þinginu að þáltill. er breytt í meðferð þingsins. Þótt þær séu orðaðar á ákveðinn hátt þegar þær koma fram, getur myndast samstaða í nefnd um að breyta því orðalagi og þá gildir orðalag þeirrar tillögu og nefndarálitið, en ekki sú greinargerð sem fylgir tillögunni upphaflega. Ég var að lýsa mig reiðubúinn til þess að taka þátt í því að móta tillögu um veiðileyfagjald, sem náðst gæti vonandi nokkuð breið samstaða um, vegna þess að það er grundvallarafstaða mín að fái ákveðnir rekstraraðilar, og aðeins tilteknir rekstraraðilar, afnotarétt af sameiginlegri auðlind, þá eigi þeir að greiða fyrir það gjald. Það á ekki að vera ókeypis aðgangur afmarkaðra og takmarkaðra aðila að sameiginlegri auðlind. Menn greiða t.d. vatnsskatt í ýmsum sveitarfélögum á landinu vegna þess að vatnið er sameiginleg auðlind, ekki vegna þess að það sé bara skattstofn heldur að það er talið eðlilegt að þeir sem nýta sameiginlega auðlind sveitarfélagsins greiði fyrir það. Ég held að hægt sé að færa mörg hagfræðileg rök auk þessarar grundvallarafstöðu fyrir því að ekki næst skynsamleg nýting á sameiginlegri auðlind nema menn greiði fyrir það eitthvert gjald. Þess vegna finnst mér þetta ekki vera siðferðileg spurning eins og kom fram hjá hv. þm. þó auðvitað megi orða það svo en aðalatriðið er að við könnum það í sameiningu hvort við séum ekki sammála því að taka upp slíka skipan.

Að öðru leyti ætlaði ég ekki að taka ítarlegan þátt í þessum umræðum en vildi að þessi afstaða kæmi hér fram.