Veiðileyfagjald

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 13:23:15 (999)

1995-11-17 13:23:15# 120. lþ. 34.9 fundur 30. mál: #A veiðileyfagjald# þál., GGuðbj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[13:23]

Guðný Guðbjörnsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvort á að koma undan, hækkuð laun fiskvinnslufólks og sjómanna eða veiðileyfagjald? Þetta eru algerlega tvö aðskilin mál að mínu mati en mér finnst þau álíka framarlega í forgangsröð. Annað er nauðsynlegt til þess að tryggja að ákveðin lög séu virt, þ.e. að auðlindin sé í eigu landsmanna og ég er þeirrar skoðunar að útgerðarmenn séu aflögufærir til þess að gera hvort tveggja. Þeir greiða nú þegar veiðileyfagjald hver til annars. Þeir fá veiðiheimildir gefins frá hæstv. sjútvrh. og versla síðan með þær að vild. Þessi auðæfi eiga auðvitað að fara til ríkisins.

Hæstv. sjútvrh. talaði um kraftinn sem væri núna í sjávarútveginum og að þeir væru að sækja á fjarlæg mið og því ber vissulega að fagna. Ég tel því að þeir séu algerlega borgunarmenn fyrir bæði betri launum og að greiða aflagjald.

Varðandi síðarnefndu spurninguna eignaði hann mér þá leið að ég vildi að landsmenn fengju veiðileyfaheimildir hver og einn. Ég var að vitna í ræðu hv. þm. Péturs Blöndals og gerði þessa leið alls ekki að minni. Ég lagði bara áherslu á það að þetta væri mál sem þyrfti að fá góða umræðu í nefndum þingsins og er alls ekki tilbúin til þess að lýsa yfir einni eða neinni leið sem betri annarri á þessari stundu.