Veiðileyfagjald

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 13:38:58 (1003)

1995-11-17 13:38:58# 120. lþ. 34.9 fundur 30. mál: #A veiðileyfagjald# þál., sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[13:38]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Þessi umræða hefur verið um margt athygli verð og sérstaklega er það athygli vert að nú undir lok umræðunnar segja helstu talsmenn og flutningsmenn tillögunnar að þeir séu í raun og veru ekki að tala um aðra gjaldtöku á sjávarútveginn og aðra skattheimtu en fer fram í dag. Hv. 19. þm. Reykv. hafði þau orð. Hv. flm., 11. þm. Reykn., hefur ekki talað um annað en að gera eitthvað svipað og Nýsjálendingar. Nýsjálendingar eru að leggja gjald á sjávarútveginn til að standa undir tilteknum kostnaði sem ríkið hefur með mjög svipuðum hætti og við gerum í dag. Munurinn er ef til vill sá að báðar þjóðir leggja á gjald til að standa undir veiðieftirliti. Þeir leggja á gjald til að standa undir hafrannsóknum, ef ég hef skilið það rétt, en við notum svipaðar upphæðir til í Þróunarsjóð. Flm. tillögunnar eru því að draga í land og til hvers er þá verið að fara af stað ef þeir í raun og veru meina ekki annað en að það eigi að leggja á svipuð gjöld og lögð eru á í dag? Hvers vegna er þá verið að fara af stað með tillöguflutninginn?

Í málflutningnum í upphafi kom hins vegar fram og í greinargerðinni að markmiðið væri annað eins og segir í greinargerðinni: að hagnaðurinn eigi að dreifast meðal landsmanna allra og það verði best gert með því að leggja á skatt og setja hann í ríkissjóð. Það þurfi að dreifa skattinum. Þess vegna hefur þessi hugmyndafræðilega umræða farið hér fram. En ég fagna því auðvitað mjög ef flutningsmennirnir eru að draga í land með þetta og eru fyrst og fremst að tala um að leggja skattinn á til að standa undir tilteknum kostnaði við veiðieftirlit og annað þess háttar. Þá er ekki mikill ágreiningur milli okkar og þá hafa þeir dregið mjög verulega í land frá því í upphafi umræðunnar.

Það hefur líka komið hér fram að menn eru að tala um alveg gjörólíka hluti. Gamli Alþfl., hv. 9. þm. Reykv., er að tala um gjaldtöku til að stjórna veiðunum og til þess að afnema það sem hann segir óréttlætið í því hvernig aflaheimildum var úthlutað í upphafi. Nú er ég út af fyrir sig alveg sammála því að það er ekkert sérstakt réttlæti að úthluta aflaheimildum á grundvelli aflareynslu. Ég held hins vegar að það hafi ekki verið bent á aðra aðferð sem er réttlátari og ég er alveg sannfærður um að ef menn hefðu ætlað að selja aflaheimildirnar í upphafi þegar þurfi að grípa til þessara ráðstafana á sínum tíma til að takmarka veiðarnar þá hefði mönnum þótt sú aðferð miklu óréttlátari hinni sem var farin. En hv. 9. þm. Reykv. er að mæla hér fyrir skatti til að selja veiðiheimildirnar á uppboði og finna réttlátara kerfi fyrir dreifingunni. Hv. 11. þm. Reykn., sem er að tala hér fyrir nýja Alþfl., er ekki að tala um að breyta grundvelli úthlutunarinnar. Hann var í upphafi þessarar umræðu að tala um að hún héldi áfram og að menn keyptu og seldu aflaheimildir. Það ætti hins vegar bara að leggja á viðbótarskatt á þann skatt sem lagður er á aflaheimildirnar í dag til þess að dreifa út til almennings. Undir lokin var hann farinn að tala um að það ætti að leggja á skatt til að standa undir tilteknum opinberum kostnaði. En hér eru menn að tala um sitt hvorn hlutinn í þessum tveimur krataflokkum. Alveg gjörólíka hluti. Talsmaður Kvennalistans getur ekki gert upp við sig hvort það á að leggja auðlindaskatt á veiðiheimildir sem dreift er til einstaklinga. Þessir hlutir ganga því út og suður í umræðunni.

Mér finnst líka bera talsvert á því að formælendur skattsins eru að notfæra sér ýmsa erfiðleika sem við eigum við að stríða í fiskveiðistjórnunarkerfinu og ég tek undir að eru mikil vandamál eins og úrkast á fiski sem ég tel vera eitthvað allra alvarlegasta vandamálið sem við stöndum frammi fyrir og getur raunverulega ógnað öllum möguleikum okkar á því að nýta fiskimiðin með hagkvæmum hætti til lengri tíma ef við náum ekki tökum á því. En að nota þennan vanda og þá óánægju sem auðvitað er vegna þeirrar staðreyndar hvernig menn ganga um auðlindina til að rökstyðja skatt fæ ég ekki skilið. Halda menn að freistingin til að henda verðminnsta fiskinum verði minni ef menn þurfa að borga meira fyrir aflaheimildirnar með skatti? Ég held ekki. Það var gott við ræðu hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar að hann einmitt dró skýr skil á milli. Það var mjög málefnalegt framlag af hans hálfu og hann var ekki að draga þessi atriði inn í umræðuna. Ég get alveg tekið þátt í umræðu á þeim grundvelli. Menn geta haft mismunandi skoðanir en ég tel það ekki málefnalegt að vera að draga þessa þætti inn því það má þvert á móti halda því fram að freistingin yrði meiri til að henda verðminnsta fiskinum ef það yrði farið að skattleggja hann. Eða á að setja skattinn á í mismunandi hlutföllum eftir verðmæti fisksins?

Hér hefur verið bent á að margir hafi áhyggjur af því að aflaheimildir færist á færri hendur og það verði til of stór fyrirtæki. Sumir halda því fram að stærstu fyrirtækin í dag séu of stór, óeðlilega stór, og það megi rekja til kvótakerfisins. Flutningsmennirnir eru ekki að tala um að breyta neinu í þessu efni og ég er þeirrar skoðunar að það séu meiri líkur á því að stærri fyrirtækin yrðu mjög fljótt stærri en þau eru í dag vegna þess að fjárhagslega eru einstaklingsútgerðirnar veikari í dag en þær stærri og þess vegna líklegt að nýr kostnaður og nýr skattur mundi leiða til þess að þær útgerðir hrykkju upp af standinum og stærri útgerðirnar keyptu aflaheimildirnar. Þetta er engin ásökun á varaformann Granda, ekki á nokkurn einasta hátt. Ég held að það sjái það bara allir í hendi sér að við þær aðstæður sem við búum í dag þá er þetta líkleg þróun af slíkri skattheimtu. Menn geta auðvitað haft þá skoðun að samt sem áður sé rétt að leggja skattinn á. En um það hljóta menn að deila.

[13:45]

Ég fagna því, herra forseti, að mér finnst að talsmenn tillögunnar hafi undir lokin breytt mjög verulega áherslum sínum og það er aðalatriði málsins. Það er reginmunur á því hvort menn eru að mæla fyrir skattheimtu til þess að ná meiri peningum inn í ríkissjóð fyrir okkur stjórnmálamennina til þess að dreifa út, eða hvort menn ætla að leggja á gjald til að standa undir ákveðnum kostnaði af þeirri beinu þjónustu sem ríkið hefur, eins og veiðieftirlitinu. Undir lokin fannst mér tillögumenn vera komnir í það far og það er nánast sú staða sem er í dag. Það er sú staða sem er í Nýja-Sjálandi. Þar er bara verið að horfa á þá þætti. Ef þetta er réttur skilningur minn á þróun umræðunnar, þá fagna ég því hvernig hún hefur þróast.