Veiðileyfagjald

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 13:49:26 (1005)

1995-11-17 13:49:26# 120. lþ. 34.9 fundur 30. mál: #A veiðileyfagjald# þál., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[13:49]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er ósköp auðvelt fyrir rökþrota mann að koma upp í ræðustól á Alþingi og segja að viðmælendurnir séu skilningslausir, mállausir og heyrnarlausir. Það er alkunna að rökþrota menn grípa til orðaleppa af því tagi og ég ætla ekki að eyða frekari orðum í það.

Hv. þm. verður að gera sér grein fyrir að það er grundvallarmunur á því hvort við erum að tala um gjaldtöku til þess að standa undir tilteknum kostnaði ríkisins með eftirliti og öðru þess háttar með veiðum, eða hvort við erum að tala um skattheimtu til þess að útdeila arðinum með meira réttlæti í gegnum ríkiskerfið. Það eina sem ég fer fram á er að hv. þm. geri grein fyrir því hvora leiðina hann er að fara. Hann æðir úr einu í annað. Stundum talar hann um að hann sé bara að leggja á kostnaðargjöld, en í annan tíma að hann sé að tala fyrir innheimtu á skatti til þess að útdeila arðinum á réttlátari hátt. Hann verður að skilja það að menn gera kröfu til þess að hann geri grein fyrir því hvað hann er að fara. Ef hann vill fara í báðar áttir, þá er kannski minna mark takandi á málflutningnum.