Veiðileyfagjald

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 13:56:49 (1010)

1995-11-17 13:56:49# 120. lþ. 34.9 fundur 30. mál: #A veiðileyfagjald# þál., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[13:56]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ég verði að fara að taka undir með hv. þm. Ágústi Einarssyni, flm. þessarar tillögu, að það er erfitt að eiga orðastað við hæstv. sjútvrh. Hann vill alltaf ræða um einhverja aðra hluti en eru til umræðu. Þessi tillaga er um veiðileyfagjaldtöku og það hefur meira að segja komið rækilega fram að hún er ekki um fiskveiðistjórnunarþátt veiðileyfagjaldtökunnar. Það hefur komið fram í umræðunni að það er hægt að beita veiðileyfagjaldtökunni, það má gefa henni ákveðið hlutverk við að stjórna fiskveiðum, en þessi tillaga er alls ekki um það mál. Þess vegna ætla ég ekki að eyða tíma í andsvörum til þess að svara einhverju um allt aðra hluti sem ekki eru á dagskrá.

Hitt hefur hins vegar komið rækilega fram að það verður aldrei sátt um það að viðhalda áfram aflamarkskerfi með framsalsrétti nema því aðeins að það verði tekin upp veiðileyfagjöld vegna þess að það er óásættanlegt, eins og hæstv. dómsmrh. ætti að viðurkenna, að menn skuli fá rétt frá ríkinu skammtaðan til þess að selja og hagnast á annarra manna eigum.