Veiðileyfagjald

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 14:02:37 (1014)

1995-11-17 14:02:37# 120. lþ. 34.9 fundur 30. mál: #A veiðileyfagjald# þál., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[14:02]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér liggur fyrir tillaga um skipan nefndar. Vegna þess að um er að ræða mál sem ekki hefur áður verið rætt á hv. Alþingi töldu flutningsmenn eðlilegt að í greinargerð tillögunnar kæmu fram þær hugmyndir sem reifaðar hafa verið í þjóðfélaginu undir einu safnheiti, veiðileyfagjald. Það er ástæðan fyrir því, hæstv. ráðherra, að þessar hugmyndir eru reifaðar í þáltill. Þær sýna fyrst og fremst hvílíkur ruglandi hefur verið í umræðunni í þjóðfélaginu og þá ekki síður hitt hversu mikil nauðsyn það er að menn afrugli sig í málinu og fari að ræða það af meiri skynsemi en gert hefur verið í dag.