Samningar ríkisvaldsins um stofnframkvæmdir og viðhald heilbrigðisstofnana

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 14:35:01 (1020)

1995-11-17 14:35:01# 120. lþ. 34.10 fundur 140. mál: #A samningar ríkisvaldsins um stofnframkvæmdir og viðhald heilbrigðisstofnana# þál., ÓRG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[14:35]

Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi ræða hæstv. fjmrh. var að vísu ekki mér ætluð, en ég fagna því hins vegar sem ráðherrann sagði og tel að það sé mikill áfangi í þessu máli sem fram hefur komið af hálfu hæstv. fjmrh. Það er í fullu samræmi við þau sjónarmið sem ég lýsti á fundi þingmanna kjördæmisins með fulltrúum sveitarstjórna á Suðurnesjum að hlyti af vera afstaða fjmrn. hver svo sem þar færi með húsbóndavald. Og ég tel það mjög mikilvægt að hæstv. fjmrh. hefur hér í andsvari gert málið enn skýrara en hann gerði áðan þótt það væri fullskýrt þar. Málið liggur þess vegna þannig fyrir að ef sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum vilja ekki fallast á breytingar á samningnum þá ber ráðherrunum, einnig hæstv. heilbrrh. eins og hæstv. fjmrh. sagði áðan, að leggja til við Alþingi fjárupphæðir sem eru í samræmi við samninginn. Það er kjarni málsins, hæstv. heilbrrh.

Hæstv. heilbrrh. hefur farið á fund sveitarstjórna á Suðurnesjum, ársfund Samtaka sveitarstjórna á Suðurnesjum, og flutt þar sín rök. Sveitarstjórnarmenn hafa eftir þann ræðuflutning gert ályktun um það að þeir telji að það eigi ekki að breyta samningnum. Þeir hafa þar með svarað hæstv. heilbrrh. formlega. Það svar liggur fyrir og ég fagna því að hæstv. fjmrh. hefur algerlega tekið af skarið með það sem ég taldi að væri í sjálfu sér óþarft vegna þess að málið lægi efnislega þannig og ég tel að hæstv. fjmrh. hafi einnig sagt það hér að þar með mun Alþingi standa við ákvæði þess samnings sem undirritaður var á sínum tíma.