Samningar ríkisvaldsins um stofnframkvæmdir og viðhald heilbrigðisstofnana

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 14:38:59 (1022)

1995-11-17 14:38:59# 120. lþ. 34.10 fundur 140. mál: #A samningar ríkisvaldsins um stofnframkvæmdir og viðhald heilbrigðisstofnana# þál., Flm. GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[14:38]

Flm. (Guðmundur Árni Stefánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ber að skilja orð hæstv. fjmrh. á þann veg að undirskrift hans í apríl sl. hafi verið óskynsamleg, að hann hafi sett nafnið sitt undir óskynsamlega fjárfestingu, einhvern steinkumbalda í Reykjanesbæ, eins og hann orðar það svo smekklega hér? Ég er þessu efnislega algerlega ósammála. Ég held þvert á móti að menn hafi staðið skynsamlega að þessari samningagerð og hafi byggt upp með framtíðarsýn í huga og rifja það upp enn og aftur að þetta D-álmumál í Reykjanesbæ er aldeilis ekki nýtt af nálinni, heldur á það áratuga sögu, þ.e. ein tíu ár eða rúmlega það. Menn hafa því verið að vinna með þetta mál lengi og mun þurfa engan stórasannleik frá hæstv. núv. heilbrrh. í þeim efnum um einhverja nýtanlega áfanga til eða frá. Ætla mætti að samningurinn frá því í apríl sl. gerði ekki ráð fyrir því að þessir áfangar yrðu nokkurn tíma nýttir? Það er auðvitað fjarri öllu lagi.

Ég vil hins vegar nota tækifærið hér til að fá það alveg skýrt. Það eru 15 dagar eða svo þar til 2. umr. fjárlaga rennur upp og hæstv. fjmrh. hefur lýst því yfir að hann muni standa við þessa samninga og gera það að tillögu sinni að þær 98 millj. sem upp á vantar til að standa við þessa 11 samninga verði lagðar fyrir hv. Alþingi. Ég skildi hann þannig. En ég vil hins vegar spyrja: Ætlar hann og hæstv. heilbrrh. að nýta þennan hálfa mánuð til þess að fara í alla þessa 11 samninga og skera þá upp þvers og kruss? Ber að skilja það þannig? Eru þeir allir óskynsamlega saman settir eða bara sumir og aðrir ekki? Þetta verður að gera skýrt.

En af því að hæstv. fjmrh. nefndi það sérstaklega að hann saknaði þess að í þáltill. væri ekki getið um barnaspítala á lóð Landspítalans þá fagna ég því sérstaklega að hann skuli koma með það hér upp á borð og ég rifja það upp, virðulegi forseti, að á vordögum 1994 með samþykki þáv. ríkisstjórnar var ritað undir samkomulag þáv. heilbrrh. við Kvenfélag Hringsins og forsvarsmenn Landspítalans. Þá lýstu stjórnendur Reykjavíkurborgar yfir að þeir skyldu koma að því máli og aðstoða. Ég skal hins vegar hugleiða það mjög alvarlega að koma til móts við þessar óskir ráðherrans og flytja um það sjálfstæða tillögu.