Samningar ríkisvaldsins um stofnframkvæmdir og viðhald heilbrigðisstofnana

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 14:41:43 (1023)

1995-11-17 14:41:43# 120. lþ. 34.10 fundur 140. mál: #A samningar ríkisvaldsins um stofnframkvæmdir og viðhald heilbrigðisstofnana# þál., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[14:41]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er einmitt dæmi um orðhengilshátt sem virðist einkenna málflutning í þessu máli. Það eru spurningar af því tagi hvort eitthvað sé óskynsamlegt eða ekki. Ég sagði að það væri skynsamlegt að gera þessar breytingar. Á þeim tíma þegar þessi samningur var undirritaður þá gerðist það eins og alltaf þegar ríkið undirritar samninga að fjmrh. kemur að samningum til þess að kanna það hver er stefna ráðuneytisins, hvernig ráðuneytið ætlar að nota sína peninga á næstunni og staðfesta það að til séu fjármunir fyrir þessu. Það var athugað þá og í ljós kom að þessir fjármunir voru til. Síðan verða stjórnarskipti, ný stjórn setur fram ný markmið, nýr ráðherra bendir á leið sem ég tel vera skynsamlegri og ég styð hana. Ég fer fram á það að þessum samningi sé breytt vegna þess að ég tel að það sé skynsamlegra fyrir íslensku þjóðina. Ég skal viðurkenna það að ég er ekki þingmaður Reyknesinga en ég er þó þingmaður þjóðarinnar og ég tel skynsamlegra að fá nýtanlegan áfanga 1997 eða 1998 frekar en bíða kannski vel fram á næstu öld til þess að hægt sé að nota þetta hús. Ég bendi líka á það að peningarnir sem sparast við þetta voru notaðir í heilbrigðismál annars staðar og þá þarf að færa þá til baka. Þetta eru mín rök og á þessu hef ég byggt mín rök þótt sumir hafi viljað misskilja mín ummæli eða mistúlka þau eftir atvikum.

Varðandi barnaspítalann þá eru þetta upplýsingar sem koma fram úr heilbrrn. og það gerist allt í einu að undirskrift hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar virðist ekki nægja til þess að það sé gildur samningur í heilbrrn. Málið er nefnilega að það var ekki betur gengið frá því máli á þeim tíma en svo að það var tekið út úr ríkisstjórn. Þar áttu heilbrrn. og fjmrn. að ræða saman um málið, en heilbrrh. þáv., núv. hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni, lá svo á fyrir kosningarnar að hann gerði samkomulag við forstjóra spítalans og Hringinn og fór á staðinn og auglýsti það að nú skyldi byggt sjúkrahús á nokkrum árum. Auðvitað tók enginn mark á því.