Samningar ríkisvaldsins um stofnframkvæmdir og viðhald heilbrigðisstofnana

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 14:54:15 (1028)

1995-11-17 14:54:15# 120. lþ. 34.10 fundur 140. mál: #A samningar ríkisvaldsins um stofnframkvæmdir og viðhald heilbrigðisstofnana# þál., DSigf (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[14:54]

Drífa Sigfúsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Þar sem orð mín virðast hafa misskilist vil ég ítreka að Suðurnesjamenn eru opnir fyrir því að ræða möguleika á að byggt verði betra hús heldur en nú er á borðinu. Hins vegar er búið að margfara yfir það hvað nauðsynlegt er að byggja og hverju er hægt að sleppa, hvað er hægt að þjónusta hér og hvað er nauðsynlegt að við höfum. Við gerum þá kröfu að við getum veitt þá lágmarksþjónustu sem við erum í raun að tala um með þessari byggingu.

Við höfum mjög takmarkað svæði til að byggja við sjúkrahúsið. Þess vegna er okkur þröngur stakkur sniðinn hvar og hvernig er hægt að byggja við þetta sjúkrahús. Við höfum lýst því yfir að við erum tilbúin til þess að skoða breytingar, en tillagan sem hæstv. fjmrh. gerði að umtalsefni hér er ekki skynsamleg fyrir framtíðina. Við erum hins vegar reiðubúnir, Suðurnesjamenn, til þess að að byggja áfanga sem er nýtilegur fyrr. Það sem einfaldlega vantar, nr. eitt, tvö og þrjú, er meira fjármagn.