Samningar ríkisvaldsins um stofnframkvæmdir og viðhald heilbrigðisstofnana

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 14:55:36 (1029)

1995-11-17 14:55:36# 120. lþ. 34.10 fundur 140. mál: #A samningar ríkisvaldsins um stofnframkvæmdir og viðhald heilbrigðisstofnana# þál., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[14:55]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að heyra þessi sjónarmið frá hv. þm. Þau gefa þó til kynna að það sé einhver smámöguleiki á því að hægt sé að ná samkomulagi um breytingar á þessari byggingu, þannig að það komi nýtilegur áfangi fyrr. Og ég vonast til þess, þrátt fyrir orð þingmannsins um að það kosti allt meiri peninga, þá muni aðilar í fullri alvöru, fulltrúar heilbrrn. og fulltrúar Suðurnesjamanna, reyna sitt besta til að ná samkomulagi um það að nýta betur það fé sem til skiptanna er í þessu sambandi. Að öðrum kosti stöndum við frammi fyrir því, allir þingmenn, að þurfa að skera niður af heilbrigðisstarfsemi annars staðar, því að þessir peningar voru í fjárlagafrv. settir í önnur verkefni. Til þess að koma í veg fyrir það og ná niðurstöðu í málið leyfi ég mér að skilja orð þingmannsins þannig að hún sé tilbúin til þess að eiga viðræður við ráðuneytið og komast að niðurstöðu sem er ásættanleg fyrir alla aðila. Ég vænti þess að menn snúi sér að þessu, sem er auðvitað aðalatriði málsins, og hætti að stunda orðhengilshátt af ýmsu tagi.