Samningar ríkisvaldsins um stofnframkvæmdir og viðhald heilbrigðisstofnana

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 14:56:57 (1030)

1995-11-17 14:56:57# 120. lþ. 34.10 fundur 140. mál: #A samningar ríkisvaldsins um stofnframkvæmdir og viðhald heilbrigðisstofnana# þál., StB
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[14:56]

Sturla Böðvarsson:

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu till. til þál. sem gengur út á það að Alþingi staðfesti tiltekna samninga sem ráðherrar hafa gert vegna framkvæmda á sviði heilbrigðismála. Ég verð að segja að víst er það gagnlegt að umræða geti farið fram á grundvelli þessarar tillögu, en auðvitað er það þannig að það er eðlilegra að umræða um samninga sem ríkið hefur gert, eða er að undirbúa, fari fram í tengslum við fjárlagagerðina.

Það er skoðun margra, og m.a. þess sem hér stendur, að það sé mjög mikilvægt að gera samninga um framkvæmdir sem ná yfir langan tíma, þannig að bæði ríkisvaldið og aðrir sem að málum koma geti gert áætlanir til lengri tíma um fjármögnun og fyrirkomulag framkvæmda. Lögin um opinberar framkvæmdir gera ráð fyrir því að gerðir séu samningar um tiltekin verk, eins og kom rækilega fram hjá hæstv. fjmrh. Ég held hins vegar að það beri að varast að ganga svo langt í samningagleðinni af hálfu hæstv. ráðherra hverju sinni, að ekki sé fyrir séð hvernig megi útvega fjármuni til að fjármagna gerða samningana. Við vitum að fjármálaráðherrar og einstakir fagráðherrar hafa gert samninga án þess að það væri öruggt að fjármunir væru tryggðir vegna þeirra samninga. Ég tel þess vegna, og vil að það komi fram í þessari umræðu, að ráðherrar þurfi að fara mjög sparlega með valdið til að gera slíka samninga. Ég tel að það hafi e.t.v. verið gengið of langt í þeim efnum. Það liggur ljóst fyrir að þessir samningar, eins og kemur fram í till. til þál., eru í rauninni langt umfram það sem líklegt er að ríkissjóður geti staðið við.

[15:00]

Þá komum við að öðru máli sem er mjög sérstakt. Ég sakna þess að hæstv. heilbrrh. skuli vera farinn úr salnum því það er alveg nauðsynlegt að hæstv. ráðherra geri sér grein fyrir því sem þar er á ferðinni. Ég vek athygli á því við umræðuna að það eru fleiri hlutir í gangi. Til viðbótar þeim samningum sem hér er vakin athygli á og krafist að Alþingi staðfesti virðist vera að t.d. á vegum Reykjavíkurborgar séu hafnar framkvæmdir og ég sá að ágætur borgarstjóri, fyrrv. þingmaður hér, tók skóflustungu að nýju hjúkrunarheimili. Ég spurðist fyrir hvort einhverjir samningar lægju fyrir um það vegna þess að ríkinu er ætlað að greiða tiltekinn hluta í byggingarkostnaði hjúkrunarheimila fyrir utan það að ríkið greiðir 100% af kostnaði við rekstur hjúkrunarheimila. Ég fékk þær upplýsingar að það lægi eitthvað lítið fyrir um staðfestingu af hálfu ríkisvaldsins um þá byggingu sem fyrirhuguð er og er raunar byrjað á úr því búið er að taka fyrstu skóflustunguna. Hins vegar hafði stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra gert samning eða staðfest framlög úr Framkvæmdasjóði aldraðra. Þarna er í rauninni tvöfalt kerfi í gangi. Stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra úthlutar í þessu tilviki fjármunum án þess að Alþingi komi þar nokkurs staðar nærri. Úr því verið er að ræða um samninga tel ég að þá þurfi að gera sér grein fyrir því hvernig þessir hlutir ganga fyrir sig. Ég efast ekki um þörf á auknu hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu, það má ekki skilja orð mín þannig, en engu að síður er nauðsynlegt að þetta komi fram í umræðunni.

Hæstv. forseti. Það eru í gangi fleiri en ein gerð samninga. Ég vil gera verulegan greinarmun á þeim. Það er í fyrsta lagi samningar sem hæstv. heilbr.- og fjmrh. hafa gert við sveitarfélögin þar sem framkvæmdir eru hafnar núna og samningar þar sem þannig háttar til að framkvæmdum er lokið en greiðsluskyldan stendur eftir. Í öðru lagi eru svo samningar sem hæstv. heilbrrh. og fjmrh. hafa gert en framkvæmdir hafa ekki hafist. Ég tel að það þurfi að ýta sérstaklega á það. Síðan er þriðja gerðin af samningum þar sem einungis hæstv. heilbrrh. hefur undirritað samninga og hæstv. fjmrh. telur sig væntanlega ekki skuldbundinn til að standa að tillögugerð um fjárveitingar til þeirra.

Þá kemur spurningin um hvernig á að standa að því ef ríkisstjórn telur nauðsynlegt að breyta samningum og þá komum við að aðalatriði málsins og aðalatriði deilunnar. Ég tel að í fyrsta lagi sé óframkvæmanlegt að segja upp samningum þar sem framkvæmdum er lokið eða framkvæmdir eru í fullum gangi á grundvelli verksamninga sem hafa verið gerðir. Ég tel að það sé ekki skynsamlegt fyrir ríkisvaldið að standa þannig að verki að rífa upp slíka samninga. En ég tel fullkomlega eðlilegt að leitað sé eftir því að taka upp samninga þar sem það er hægt. Það er bara eðlilegur gangur á milli ríkisvaldins og í þessu tilviki sveitarfélaganna að hægt sé að ganga til samninga vegna þess að forsendur hafi breyst. Ég tel að það eigi ekki að gera í krafti ráðherravalds með tilkynningu sem felur í sér að samningum verði rift og það eigi ekki að standa við samninga. Þannig á ekki að standa að málum og þannig getum við ekki staðið að málum. Ég tel hins vegar alveg fullkomlega eðlilegt og tel að við eigum í rauninni ekki annarra kosta völ í þeirri stöðu sem við erum í hvað varðar ríkisfjármálin en að ganga til samninga og reyna að ná fram skynsamlegri og betri áföngum í ýmsum verkum en við blasa. Þess vegna tel ég eðlilegt að ganga til viðræðna, m.a. hvað varðar þessi tvö verk í Keflavík og Fáskrúðsfirði og reyna að ná samkomulagi um að ekki þurfi að greiða þá fjármuni sem samningarnir gera ráð fyrir.

Hæstv. forseti. Ég endurtek að við eigum auðvitað að standa við samninga en forsendur geta breyst og þá þurfum við að geta hafið viðræður og komist að niðurstöðu.