Samningar ríkisvaldsins um stofnframkvæmdir og viðhald heilbrigðisstofnana

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 15:15:17 (1032)

1995-11-17 15:15:17# 120. lþ. 34.10 fundur 140. mál: #A samningar ríkisvaldsins um stofnframkvæmdir og viðhald heilbrigðisstofnana# þál., KPál
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[15:15]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég vil fagna yfirlýsingu hæstv. fjmrh. hér áðan --- og mér heyrðist hann einnig mæla fyrir hönd hæstv. heilbrrh. --- um að ekki yrði gengið á gerða samninga við sveitarfélög um byggingarframkvæmdir sem undirritaðir hafa verið af þeirra hálfu nema um það náist samstaða við þá sem skrifuðu undir samningana með þeim. Þessar yfirlýsingar finnast mér mjög mikilvægar í ljósi umræðunnar sem hefur farið fram og hefur komið fram í viðtölum og blöðum og gat hugsanlega bent til einhvers annars.

Þetta er einnig mjög mikilvægt vegna umræðunnar, sem fór fram í kringum afgreiðslu fjárlaga, þar sem í rauninni kom í ljós í fyrsta skipti hvað væri til umræðu varðandi breytingar á samningum. Þegar þessar hugmyndir, sem voru gerðar um niðurskurð framkvæmda, voru kynntar í stjórnarflokkunum var ekki tekið á því hvaða samningar væru þar til umræðu heldur var litið á það sem heildarramma hvernig niðurskurðartillögur kæmu fram, ekki einstakar framkvæmdir. Það er mjög mikilvægt varðandi þær yfirlýsingar sem hæstv. fjmrh. kom áðan með fyrir framhald á samningum við sveitarfélög um yfirtöku grunnskólans til sveitarfélaganna og annarra verkefna eins og komið hefur fram hjá öðrum hv. þm.

Samningar um D-álmu við Sjúkrahús Suðurnesja voru gerðir eftir mjög langar samningalotur jafnvel árum og áratugum saman. Eins og menn muna eflaust og hefur reyndar komið fram í ræðum annarra hv. þm. hefur feikilega mikið verið gefið eftir af hálfu Suðurnesjamanna í þessari byggingu. Á þessu svæði hefur lítið sem ekkert verið byggt á undanförnum áratugum. Á sama tíma hefur fjölgað gríðarlega á þessu svæði og langt umfram landsmeðaltal. Suðurnesjamenn hafa bent á að þegar kemur t.d. að rekstri Sjúkrahúss Suðurnesja, sjúkrahússins í Keflavík, hafi verið vitlaust gefið. Þar hafi verið mun minni fjármunir til reksturs en hjá öðrum sambærilegum sjúkrahúsum og það hefur einmitt komið í ljós sem þeir héldu réttilega fram að rekstur sjúkrahússins í Keflavík hefur minnsta fjármuni á bak við sig á hjúkrunarrúm af öllum sjúkrahúsum landsins. Þetta ætti náttúrlega að vera þeim til hróss fyrir góðan rekstur og það er mjög mikilvægt en eigi að síður sýnir hvað þeir hafa gengið langt við að ná hagkvæmni sem hefur skert þá þjónustu sem þeir telja sig þurfa að veita eins og önnur sjúkrahús á landinu.

Ég tek undir það sem komið hefur fram hjá hv. þm. Drífu Sigfúsdóttur að það sé að sjálfsögðu nauðsynlegt að ræða einhvers konar breytingar á þeim samningi sem gerður var um byggingu D-álmu ef þær geta verið í samkomulagi beggja aðila. Ég tek undir með þeim sem hafa rætt um þetta mál af hálfu Suðurnesjamanna að sú lausn sé mjög óviðunandi að fara út í áfanga sem skilar einungis fyrstu hæðinni ásamt bráðabirgðaþaki, kannski ekki endilega vegna þess að það geti ekki verið góður áfangi heldur vegna þess að það er líka dýr lausn að mínu viti. Það kostar 17 millj. kr. að byggja bráðabirgðaþakið. Bara það eitt út af fyrir sig er mjög dýrt og hæpið bygging með þessum aukakostnaði geti borgað sig ef síðan er ætlunin að byggja tvær hæðir ofan á fyrstu hæðina eftir um 2--3 ár. Ég held að það hljóti að vera hyggilegt að ljúka við bygginguna og ef menn komast ekki að neinni annarri betri lausn en að halda sig við samninginn þá sé það besti kosturinn. Ég tel aftur á móti að besti kosturinn sé náttúrlega sá að byggja þá fermetra sem menn hafa samið um og koma um leið nýtanlegum áfanga í gagnið. Þannig held ég að allir yrðu sáttir.

Ég lýk svo máli mínu með því að ítreka vilja minn sem þingmaður Reyknesinga fyrir því að leysa málið þannig að byggingarframkvæmdir geti hafist sem fyrst. Samkvæmt þeim samningi sem var undirritaður átti að vera búið að ganga frá öllum útboðsgögum þannig að byggingarframkvæmdir gætu farið í útboð og framkvæmdir hæfust á næsta ári. Ég veit ekki til þess að svo hafi verið gert og ég vona að á næstu dögum geti menn náð þeim áfanga að ná fyrst og fremst samkomulagi og þá að halda áfram þeim undirbúningsframkvæmdum sem eru nauðsynlegar.