Samningar ríkisvaldsins um stofnframkvæmdir og viðhald heilbrigðisstofnana

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 15:40:00 (1040)

1995-11-17 15:40:00# 120. lþ. 34.10 fundur 140. mál: #A samningar ríkisvaldsins um stofnframkvæmdir og viðhald heilbrigðisstofnana# þál., KHG
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[15:40]

Kristinn H. Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Hér er mjög athyglisvert mál á ferðinni og til umræðu og óvanalegt. Ég minnist þess ekki að hafa séð þskj. af þessu tagi þar sem listaðir eru upp tilteknir samningar milli framkvæmdarvalds og sveitarstjórna og farið fram á að Alþingi staðfesti þá samninga.

Vegna þeirrar tillögu 1. flm. um að vísa málinu til hv. heilbr.- og trn. vil ég láta koma fram þá skoðun mína að ég tel reyndar að málið eigi að fara til hv. fjárln. Hér er ekki um að ræða mál sem fellur beinlínis undir verksvið heilbr.- og trn. heldur er um að ræða mál, samninga sem hver um sig fjalla einvörðungu um framkvæmdir, fjárútgjöld, hversu mikið ríkið eða Alþingi samþykkir að veitt verði í hverja framkvæmd fyrir sig og hve mikið á hverju ári. Hér er einvörðungu um að ræða fjárhagsmál og ég tel því, virðulegi forseti, að mál þetta eigi að fara til hv. fjárln. og ég legg þá tillögu fram til forseta. E.t.v. mun flm. eða talsmaður flutningsmanna fallast á þessa skoðun mína þannig að uppi verði þá ekki nema ein skoðun, þ.e. þá að málið fari til fjárln. en ég vænti þess að flm. geti tekið undir rök mín í þessu efni.

Mér finnst sú greining sem kom á því í orðaskiptum í upphafi umræðunnar milli hæstv. fjmrh. og hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar vera alveg laukrétt. Hér er um að ræða samninga sem tveir aðilar standa að í hverju tilviki fyrir sig, þ.e. ráðherrar annars vegar og sveitarstjórnarmenn hins vegar. Þeim aðilum ber því að framfylgja ákvæðum samningsins hvorum um sig nema þeir nái samkomulagi um að breyta honum. Því er rétt hjá hæstv. fjmrh. að þeim ráðherrum ber að leggja fyrir þingið tillögur í samræmi við þá samninga sem þeir hafa undirritað eða forverar þeirra með lögmætum hætti.

Hins vegar er líka rétt að það bindur ekki Alþingi. Alþingi hefur sjálfstæðan ákvörðunarrétt í þessu máli og hlýtur eðli málsins samkvæmt að taka samningana til skoðunar og komast að einhverri niðurstöðu að lokum um afstöðu sína til þeirra samninga sem fyrir það er lagt. Ef við skoðum þá samninga sem eru taldir upp og er væntanlega gert vegna þess að flm. hafa einhvern grun um að ráðherrar hyggist ekki framfylgja þeim þá eru þeir auðvitað á misjöfnu stigi að því er varðar Alþingi. Sumir samningarnir eru þannig staddir að búið er að veita fé út á ákvæði samninganna. Sem dæmi má nefna hinn títtnefnda samning um byggingu D-álmu í Keflavík en þar kemur fram í samningnum sjálfum að Alþingi hefur veitt fé til samningsins á fjárlögum 1994--1995. Með öðrum orðum, Alþingi er búið að samþykkja að af þessari framkvæmd verði, ekki endilega með þeim verkhraða sem ákveðið er í samningnum en framkvæmdin hefur verið samþykkt. Ég tel að í þeim tilvikum sem Alþingi hefur þannig í reynd farið að ákvæðum samningsins hvað varðar einstök fjárlagaár eða í öllum tilvikum þá sé Alþingi búið að taka þá afstöðu að það eigi að vinna verkið með þessum hætti. Stundum kann að vera að fjárveitingar ársins séu lægri en samningsákvæðin ákveða og þá þýðir það náttúrlega að Alþingi hefur ekki endilega fallist á greiðslufyrirkomulagið í samningunum og því ber að gera breytingar á samningunum í samræmi við það. En í þeim tilvikum sem Alþingi hefur veitt fé til framkvæmda sem samningarnir fjalla um, þarf ekki að deila um það að í þær framkvæmdir eigi að ráðast.

[15:45]

Að lokum vil ég segja, virðulegi forseti, að mér finnst þetta mál vera áminning til okkar um það að við eigum að vinna að uppbyggingarmálum með samræmdari hætti en verið hefur. Hér hefur kannski verið um of tilviljunarkenndar ákvarðanir að ræða sem ráðherrar hafa staðið að, í stað þess að miða við einhverja samræmda áætlun sem menn hafa lagt niður fyrir sér, sýnt Alþingi og ákveðið að vinna eftir henni á einhverjum árabilum. Ég held að það væri mjög til bóta, hvort sem það er í heilbrigðismálum eða öðrum málaflokkum, að haga uppbyggingu á mannvirkjum og þjónustu ríkisins með samræmdum hætti og eftir fyrir fram gerðri áætlun sem menn hafa komið sér saman um og Alþingi hefur staðfest sem stefnumótandi plagg.

Ég vil taka undir það, virðulegi forseti, að mér finnst ekki eðlilegt að afgreiða þingmál svona. Mér finnst óvanalegt, svo ekki sé fastar að orði kveðið, að ætlast til þess að Alþingi staðfesti tiltekna samninga. Ég er því heldur tregur til að fylgja þessu máli eftir til enda. Þótt ég geti tekið undir það, sem kannski er megintilgangur málsins, að tryggja framgang tiltekinna framkvæmda, þá er ég sammála því, sem fram hefur komið af hálfu flutningsmanna, að Alþingi hafi mjög víða í þessum samningum gert þá að sinni stefnu með fjárveitingum.

Það sem mér finnst á skorta í þessari umræðu er að heyra viðhorf hæstv. heilbrrh. Eftir að fjmrh. tók af skarið hvað hann varðaði og bar til baka það sem á hann hefur verið borið um þetta efni, stendur enn eftir að fá að heyra afstöðu heilbrrh. Kannski erum við að fjalla um málið af misskilningi. Meðan ráðherrann hefur enn ekkert sagt um málið, getum við auðvitað ekki fullyrt að hann hyggist ekki standa ekki við samningana í meginatriðum.