Samningar ríkisvaldsins um stofnframkvæmdir og viðhald heilbrigðisstofnana

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 16:20:28 (1049)

1995-11-17 16:20:28# 120. lþ. 34.10 fundur 140. mál: #A samningar ríkisvaldsins um stofnframkvæmdir og viðhald heilbrigðisstofnana# þál., Flm. GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[16:20]

Flm. (Guðmundur Árni Stefánsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var kúnstug ræða og kannski ekki neitt nýtt í þeim efnum þegar um er að ræða hæstv. heilbrrh. Ég vil vekja athygli hennar á því að í fylgiskjölum og greinargerð er tekið fram og undirstrikað að þessi tillaga um 11 samninga byggir á umbeðnum upplýsingum úr ráðuneytinu sjálfu þannig að ég held að það væri hyggilegt fyrir hæstv. ráðherra að skoða innviði síns ráðuneytis og kanna hvað þar er í skúffum og handröðum. Ég held að það væri næsta skref. Að gefnu tilefni, vegna upplýsinga sem hér komu fram, spurði ég hvort það væri eitthvað meira í skúffum og handröðum sem ástæða væri til þess að fjalla um hér á hinu háa Alþingi og er ekki að finna í þessari skrá sem kemur frá hv. ráðuneytisstjóra í ráðuneytinu. Er eitthvað meira þar sem er þá verið að halda leyndu eða hvað er þar á ferð? Vissulega verða hv. þm. að treysta þeim upplýsingum sem frá hinum háu ráðuneytum koma, en það virðist einhver misbrestur ætla að verða á því.

Ég hygg að hæstv. heilbrrh. þurfi enga hjálp frá mér þegar kemur að nýjum hugmyndum um skattálögur á sjúka í þessu þjóðfélagi. Hið nýja innritunargjald á spítala segir alla þá sögu. Það er alger umsnúningur í viðhorfi ráðherrans til þeirra mála frá því sem var á síðasta kjörtímabili og þess sem er að finna í forsendum til fjárlaga fyrir 1996 þó að menn séu að reyna að finna upp á því nýtt heiti, svokallað jöfnunargjald. Mér sýnist hún þannig algerlega einfær um að skattleggja sjúka Íslendinga svo að ég gleymi ekki þeim sjúku sem sækja þjónustu glasafrjóvgunardeildar þannig að ég held að það þurfi enga hjálp frá mér í þeim efnum.

Meginatriðið er það að þeir samningar sem hér um ræðir byggja á þeirri grundvallarforsendu að menn horfi til framtíðar og reyni að treysta þá starfsemi sem í þeim verður í framtíðinni. Stundum kostar það mikla peninga, stundum minni. Það er allt eftir efnum og ástæðum.