Samningar ríkisvaldsins um stofnframkvæmdir og viðhald heilbrigðisstofnana

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 16:24:26 (1051)

1995-11-17 16:24:26# 120. lþ. 34.10 fundur 140. mál: #A samningar ríkisvaldsins um stofnframkvæmdir og viðhald heilbrigðisstofnana# þál., Flm. GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[16:24]

Flm. (Guðmundur Árni Stefánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það hljóti að vera einkar fátítt á hinu háa Alþingi að hæstv. ráðherra viti ekki hvað stendur í þeim bréfum sem frá ráðuneytinu koma og ef hún hefur ekki fengið fyrirspurnir mínar sem ég skrifaði til ráðuneytisins 26. október 1995 þar sem ég óska eftir þessum tilteknu upplýsingum, sem er síðan að finna í fylgiskjölum með þessum þáltill., þá held ég að það sé ástæða til þess að ég afhendi henni þær hér og nú í votta viðurvist, þannig að hún geti kynnt sér það sem um var spurt. Og það er spurt um, með leyfi forseta: ,, . . . að það verði gefnar upplýsingar og skrá yfir þá samninga sem heilbrrn. með eða án aðildar fjmrn. hefur gert um nýbyggingar á vettvangi heilbrigðismála eða um meiri háttar viðhald á mannvirkjum sem notuð eru til heilbrigðisþjónustu.``

Ef ekki er hægt að fá einfalt svar við þessu, þá er illa fyrir okkur komið í samskiptum Alþingis og framkvæmdarvaldsins. Það verð ég að segja. Enn og aftur án þess að ég ætli að fara að elta ólar við yfirlýsingar hæstv. ráðherra um það að ég hafi engar áhyggjur af því hvernig við fjármögnum heilbrigðisstofnanir í landinu. Vissulega hef ég af því áhyggjur og hef reynt að treysta rekstrargrundvöll þessa kerfis á liðnu kjörtímabili. Ég vil hins vegar minna á að í minni tíð sem heilbrrh. sagði ég: Það er komið nóg af þjónustugjöldum. Og ég man ekki betur en hv. þm. Ingibjörg Pálmadóttir hafi tekið undir það. Hún hefur hins vegar breytt um skoðun og telur að það vanti eitthvað upp á og ætlar að leggja á jöfnunargjöld og ný þjónustugjöld. Það er auðvitað eftirtektarvert í henni pólitík í þessu sambandi, það er meginatriðið. Og það er hrein og klár bábilja og brandari, ef hæstv. heilbrrh. heldur að 100 millj. kr. sparnaður við stofnframkvæmdir í 45--46 milljarða kr. pakka í heilbr.- og trmrn. skipti þar sköpum. Það er algjör brandari.