Áfengislög

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 16:59:26 (1057)

1995-11-17 16:59:26# 120. lþ. 34.12 fundur 144. mál: #A áfengislög# (aldursmörk) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[16:59]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lagði tvær einfaldar spurningar fyrir flutningsmanninn. Hann svaraði hvorugri. Fyrri spurningin, sem var ákaflega einföld, var spurning um mat flutningsmannsins á áhrifum breytingarinnar sem frv. felur í sér. Mun breytingin að hans mati auka áfengisnotkun unglinga á aldrinum 18 ára til tvítugs? Verður það óbreytt eða minnkar? Því svaraði þingmaðurinn ekki en sagði að hann teldi að bruggsala mundi minnka. Ég hlýt að ítreka spurninguna. Telur þingmaðurinn að breytingin, sem felst í frv., muni stuðla að því að draga úr áfengisnotkun eða auka hana? Ég hlýt að spyrja líka vegna síðari spurningarinnar sem hv. þm. svaraði ekki og ég ítreka spurninguna: Telur þingmaðurinn að þeir sem höfðu um þessi mál að segja í Bandaríkjunum og ákváðu að hækka aldurinn úr 18 ára í 21 árs, hafi gert mistök? Út frá hvaða sjónarmiði voru það mistök? Út frá því sjónarmiði að menn vildu draga úr áfengisnotkun? Eða vildu menn auka áfengisnotkun? Og að lokum, virðulegi forseti, hlýt ég að spyrja þingmanninn um hvað hann meini með þessari tilvitnun í tvískinnung varðandi aldursheimildir til að bera skotvopn í Bandaríkjunum. Er þingmaðurinn að boða að reglur um meðferð skotvopna hér á landi eigi að vera þær sömu og reglur um áfengiskaup?