Áfengislög

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 17:19:00 (1064)

1995-11-17 17:19:00# 120. lþ. 34.12 fundur 144. mál: #A áfengislög# (aldursmörk) frv., GL
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[17:19]

Guðmundur Lárusson:

Herra forseti. Ég hef velt því fyrir mér hver er tilgangur flutningsmanna með því að leggja þetta frv. fram. Er tilgangurinn sá að reyna að sporna við því ástandi sem við vitum öll hvernig er? Ef svo er þá held ég að flutningsmenn fari villir vega. Ég held að menn verði að gera sér grein fyrir hvers vegna ástandið í miðbæ Reykjavíkur og annarra bæja svo og ástandið á sveitaböllum víðs vegar um landið er svona. Hvað er það sem veldur því að unglingar allt niður í fermingaraldur neyta áfengis í óhóflegum mæli og við vitum af þessu. Foreldrarnir, löggjafinn, löggæslan, barnaverndarnefndirnar vita þetta en samt horfa allir fram hjá þessu. Hvers vegna er ástandið hjá unglingunum með þessum hætti? Að hluta til má skýra það með því að það þjóðfélag sem unglingarnir búa í er þeim ekki sérstaklega geðfellt. Það er jafnvel atvinnuleysi hjá foreldrunum og unglingarnir leggja af stað út í lífið þar sem ástandið í þjóðfélaginu gerir það að verkum að þeir sjá fram á að vegna peningaleysis foreldranna hafa þeir ekki efni á því að fara í nám. Slíkt veldur að sjálfsögðu vonleysi hjá unglingum. Vonleysinu mæta þeir kannski með óhóflegri drykkju.

Ég sé ekki að frv. komi á einn eða annan hátt í veg fyrir þetta ástand vegna þess að þó aldurinn til að kaupa áfengi sé færður niður í 18 ár þá náum við samt sem ekki til þeirra sem eru vandamálið, þ.e. börn frá fermingu og upp í 16--17 ára aldur. Breytingin tekur á engan hátt á því hvernig þessi hópur nálgast áfengi. Aldeilis ekki. Það eru ekki 18 ára ungmenni sem eru til vandræða í miðbænum eða á sveitaböllum víðs vegar um landið.

Mér finnst mjög sérkennilegt og raunar áhyggjuefni sem stendur í greinargerðinni að lögin, sem farið sé eftir, séu óréttlát og óskynsamleg og erfitt sé að framfylgja þeim. Hvernig er komið fyrir þjóðfélaginu þegar það kemur jafnvel fram á hinu háa Alþingi að menn bera enga virðingu fyrir þeim lögum sem eru þó sett á Alþingi?

Hæstv. forseti gerði að umtalsefni í upphafi þings að virðing almennings gagnvart Alþingi færi þverrandi. Er það nokkur furða, herra forseti, þó virðing almennings gagnvart Alþingi fari þverrandi þegar slíkt kemur jafnvel fram í frv. sjálfum sem eru lögð hér fram og ég tala ekki um í málflutningi einstakra þingmanna eins og kom fram hjá hv. þm. Siv Friðleifsdóttur þar sem hún lýsti því nánast yfir að hún bæri enga virðingu fyrir þeim lögum sem sett væru af hinu háa Alþingi? Hver ætlar að draga mörkin um hvaða lög eru skynsamleg og hvaða lög eru ekki skynsamleg? Við verðum að bera virðingu fyrir þeim lögum sem hér eru sett. Ég held að það væri nær að við beindum því til hæstv. dómsmrh., sem er yfirmaður löggæslunnar í landinu, að þeim lögum sem gilda í landinu væri framfylgt og að lögreglan horfi ekki fram hjá því ófremdarástandi sem ríkir hér helgi eftir helgi nánast alls staðar í þjóðfélaginu. Þess vegna legg ég til að frv. verði fellt vegna þess að það tekur á engan hátt á þeim vanda sem við búum við í þjóðfélaginu.