Áfengislög

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 17:23:26 (1065)

1995-11-17 17:23:26# 120. lþ. 34.12 fundur 144. mál: #A áfengislög# (aldursmörk) frv., MS
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[17:23]

Magnús Stefánsson:

Virðulegi forseti. Hér er til umfjöllunar frv. til laga um breytingar á áfengislögum sem felur í sér að aldursmörk sem heimila áfengiskaup verði lækkuð úr 20 í 18 ár. Ég vil í upphafi máls míns lýsa því yfir strax að ég er algerlega andvígur þessari breytingu og ég tel að í greinargerð með frv. komi ekki fram nein haldbær rök sem sannfæra mig um að breytingin skuli gerð. Að vísu er ein setning sem ég tek undir, með leyfi forseta: ,,Í ljósi umræðna um vaxandi vímuefna- og áfengisnotkun ungmenna gæti slík breyting á áfengislögunum virst mótsagnarkennd.`` Mér finnst þetta eitt af örfáu sem ég get tekið undir í greinargerðinni.

Ég tel að með breytingunni sé alls ekki hægt að taka á þeim áfengisvanda sem framsögumaður lýsti í upphafi sinnar ræðu. Þess vegna tel ég það mjög andvígt því ástandi að gera þessa breytingu.

Í greinargerðinni er talað um lög sem fólki finnst úrelt og virði ekki og þá á samkvæmt þessu bara að breyta lögunum. Ég skil ekki slíkan þankagang. Hv. þm. Hjálmar Jónsson fór yfir þetta og ég ætla ekki að endurtaka það sem hann sagði en ég er honum sammála. Hann tók dæmi um lög sem við vitum að eru brotin og fólk virðir ekki og þá er spurning hvort eigi að breyta þeim til þess að lögin falli að hegðun fólksins. Ég tel að það sé ekki rétt leið.

Framsögumaður fór yfir skýrslur og greinargerðir sem lýsa því vandamáli sem er áfengisvandi ungmenna. Ég verð að segja að ég er nokkuð undrandi á því að framsögumaður og samflutningsmenn hennar skuli koma með þetta frv. sem lausn á því vandamáli. Ég næ því ekki alveg að það skuli fara heim og saman. Ég held að þingmenn ættu frekar að nota sinn tíma í að fjalla um með hvaða hætti má koma í veg fyrir þessi vandamál á annan hátt en að gera þessar breytingar á áfengislöggjöfinni. Ég tek undir það sem hv. síðasti ræðumaður sagði að þingmenn ættu að beita sér fyrir því að dómsmrh. geri viðeigandi ráðstafanir til þess að tekið verði á þessum vandamálum.

Ég ætla ekki að halda langa ræðu um þessi mál en mig langaði til að nota tækifærið í þessari fyrstu umferð og koma upp til að lýsa skoðun minni á þessum málum. Vegna þess að hv. framsögumaður talaði um að hún hefði fengið viðbrögð hjá ungmennum úti í þjóðfélaginu við þessu frv. þar sem því er fagnað --- ég skildi mál hennar þannig --- þá get ég sagt frá því að ég hef fengið viðbrögð frá ungmennum sem eru mjög andvíg breytingunni. Mér sýnist því ekki einhlítt hvert viðhorf þess fólks er sem málið varðar kannski öðrum fremur.

Herra forseti. Ég endurtek það sem ég sagði í upphafi að ég mun beita mér gegn samþykkt frv. og mun greiða atkvæði gegn því þegar þar að kemur.