Áfengislög

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 17:27:39 (1066)

1995-11-17 17:27:39# 120. lþ. 34.12 fundur 144. mál: #A áfengislög# (aldursmörk) frv., KHG
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[17:27]

Kristinn H. Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Hér hefur verið mælt fyrir afar sérkennilegu máli og erfitt er að fá botn í það til hvers það er flutt. Það hefur ekki komið fram hjá flutningsmanni, sem hefur mælt fyrir því, að hann telji að áhrif frv. verði til góðs. Hann treystir sér ekki til að halda því fram að frv. muni bæta úr því ástandi sem er í þjóðfélaginu í áfengismálum. Þá spyr maður til hvers er verið að flytja frv. ef það á ekki að bæta úr því ástandi sem er nú? Er það vegna þess að flutningsmaður er sáttur við ástandið í áfengismálum í þjóðfélaginu? Er það samanlögð niðurstaða þingmannsins eftir sjö ára setu í stóli félmrh. að það séu engin vandamál í áfengismálum hjá þessari þjóð og það sé óhætt að gera breytingar sem leiða ekki til góðs? Er það niðurstaðan af þekkingu þingmannsins á högum fólks, bæði fátæks fólks, atvinnulauss fólks, gamalls fólks, ungs fólks, eins og lesa má í öllum skýrslunum sem skrifaðar voru í sjö ára valdatíð þingmannsins sem félmrh. að óhætt sé að hleypa fleirum í að kaupa áfengi? Það er dálítið merkilegt að þingmaðurinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að brýnasta verkefni hans í íslensku þjóðfélagi um þessar mundir eftir að hafa setið sjö ár á stóli sem félmrh. sé að leyfa fólki 18--20 ára að kaupa sér áfengi. Það er framlag formanns Þjóðvaka til þjóðfélagsumræðunnar um þessar mundir. Oft hafa menn haft rismeiri ástæðu til málflutnings en fram kemur í þessu efni.

[17:30]

Ég vil fara yfir nokkur atriði í málinu. Ég lít þannig á málið að þessari löggjöf sé ætlað að marka stefnu opinberra yfirvalda í áfengismálum eða öllu heldur áfengisvarnamálum. Menn hafa komist að þeirri niðurstöðu að það þurfi löggjöf. Það þarf að takmarka aðgang manna að áfengi með einum eða öðrum hætti eins og tilgreint er í löggjöf á hverjum tíma. Menn reyndu í upphafi aldarinnar að takmarka það að fullu. Þá var viðhorfið í þjóðfélaginu þannig að menn töldu best að leyfa þetta ekki, banna það alveg, en gáfust upp á því eins og kunnugt er. Engu að síður hefur verið um það sátt í þessu þjóðfélagi að það þurfi áfengisstefnu af hálfu hins opinbera, sem hafi það takmark að neyslan verði sem minnst. Og að neysla yngri aldurshópanna verði sem minnst. Til að mæta þessu sjónarmiði hafa menn sett þau lög sem í gildi eru og þeir þekkja sem hafa kynnt sér þau.

Í fyrra kom út skýrsla um áfengismálastefnu sem gerð er á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sem starfar, eins og menn vita, á vegum Sameinuðu þjóðanna. Þar eru þessi mál rakin og þær athuganir tíundaðar sem gerðar hafa verið. Þar er ekki um neitt ágiskunarefni að ræða, menn hafa reynt að gera kannanir og draga saman niðurstöður þannig að þeir hafi einhvern grunn að standa á. Áfengispólitíkin er síðan byggð á staðreyndum sem óþarfi er að deila um. Í þessari skýrslu eru raktar tilteknar staðreyndir sem eru niðurstöður athugana. Þótt hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sé kokhraust og leyfi sér að fullyrða ýmislegt þá efast ég um að þingmaðurinn leyfi sér að draga í efa niðurstöður þessara athugana. Þær eru í meginatriðum þessar:

Ef menn auka aðgengi að áfengi, eykst neyslan. Ef neyslan eykst, aukast þau vandamál sem henni fylgja eins og t.d. drykkjusýki, umferðarslysum fjölgar og fleira þess háttar. Þetta liggur fyrir. Þetta eru óumdeilanlegar niðurstöður sérfræðinga eins og fram kemur í skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Út frá henni rekja þeir helstu atriðin sem skipta máli ef yfirvöld ætla sér að reka áhrifaríka áfengismálastefnu. Það er í fyrsta lagi smásöluformið. Vilji menn ná góðum árangri, þarf smásöluformið að vera í formi ríkiseinkasölu. Það þarf ekki að útlista það fyrir þeim þingmönnum sem hér eru. Þeir þekkja það bæði héðan og frá hinum Norðurlöndunum að ríkiseinkasölur hafa skilað mun betri árangri í því að takmarka áfengisnotkun en annað form smásölu.

Í öðru lagi er það styrkleiki áfengisins sem selt er, og þá sérstaklega styrkleiki bjórsins, sem hefur áhrif.

Í þriðja lagi kemur til verðlagning á vörunni og í fjórða lagi fjöldi útsölustaða. Athuganir sýna að ef útsölustaðir eða smásölustaðir eru margir á litlu svæði eykur það verulega áfengisnotkunina á viðkomandi svæði. Og við getum horft hér á miðbæ Reykjavíkur þar sem vínveitingastöðum og útsölum hefur fjölgað gríðarlega á örfáum árum. Enda tala menn um sérstakt vandamál hér, þannig að það staðfestir enn frekar niðurstöður þessara sérfræðinga.

Fimmta atriðið er aldurinn. Áfengiskaupaaldurinn. Hann hefur gríðarlega mikil áhrif.

Í sjötta lagi koma til þær reglur þeir starfa eftir sem selja og afgreiða áfengi, hvort heldur er í útsölum eða vínveitingastöðum. Öll þekkjum við ákvæðin í lögunum sem banna sölu áfengis til manna sem eru sýnilega ölvaðir. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir tók það ekki sem dæmi um tvískinnung. Er það ekki tvískinnungur, hv. þm., að banna með lögum að selja manni áfengi sem bersýnilega er ölvaður? Vill þingmaðurinn ekki beita sér fyrir því að það ákvæði laganna verði numið út gildi? Hvers vegna heldur þingmaðurinn að þetta ákvæði sé sett í lögin? Opnunartíminn er atriði sem skiptir líka miklu máli. Bæði það hversu lengi er opið á dag og hversu oft í viku.

Enn vil ég nefna eitt atriði sem skiptir gríðarlegu máli. Það eru auglýsingar. Ef auglýsingar eru leyfðar, hefur það áhrif á áfengisnotkun. Það er engin tilviljun að við höfum farið inn á þá braut hér á landi að banna áfengisauglýsingar. Fleiri atriði má nefna, en þetta eru þau helstu sem koma fram í skýrslunni. Ég hygg að þingmenn kannist við að við höfum beitt öllum þessum atriðum til þess að stýra okkar áfengismálastefnu á sem skynsamlegastan hátt, miðað við það sem við getum gert í þeim efnum.

Því miður hefur þróunin á undanförnum árum verið í gagnstæða átt. Því miður hafa hvorki alþingismenn né frammámenn í þjóðfélaginu talað fyrir breytingum á hinni opinberu áfengismálastefnu á undanförnum árum í þá átt að draga úr áfengisnotkun. Menn hafa ekki haft þann metnað, ef svo má segja. Þvert á móti hefur verið talað fyrir breytingum í gagnstæða átt, sem kölluð er frjálsræðisátt. Það er væntanlega sú átt sem eykur neysluna, eykur alvarlegar afleiðingar áfengisnotkunar, fjölgar slysum og eykur samfélagslegan kostnað sem lendir svo á endanum á skattgreiðendum. Það heitir í frjálsræðisátt.

Öll þekkjum við umræðuna um bjórinn. Ísland skar sig úr að því leyti að hér var bannað að selja bjór. Margir töldu það skrýtið og flokkuðu það m.a. undir tvískinnung. En það hafði mikil áhrif. Sem dæmi má nefna yfirlit sem ég er hér með yfir áfengisnotkun einstaklinga á Norðurlöndum, mælt í lítrum af 100% alkóhóli. Þá kemur í ljós að notkunin hér á landi er miklu minni en í Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð en svipuð og í Noregi, sem hefur rekið mjög svipaða áfengismálapólitík og við Íslendingar. Þessi tvö lönd, Ísland og Noregur, eru langt um lægri en hin löndin þrjú. Það er auðvitað vegna þess að við höfum rekið aðhaldssama pólitík.

Eftir að bjórinn var leyfður urðu áhrifin þau, samkvæmt athugunum sem geðdeild Landspítalans gerði haustið 1992, að neysla á áfengi hafði aukist hjá ungmennum. Hún jókst sem sagt eftir að bjórinn kom til sögunnar. Það þýðir ekki fyrir hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur eða aðra að mæla á móti staðreyndum. Ef þeir vilja gera breytingar á áfengismálapólitík Íslendinga verða þeir hinir sömu að vera menn til að viðurkenna að þær breytingar eru ekki lagðar fram til að draga úr áfengisnotkun, heldur til að auka hana. Það var niðurstaðan með bjórinn, eins og menn sáu fyrir og sagt var. Enda byggðu menn á staðreyndum í þeim efnum og þær gengu auðvitað eftir, eins og vænta mátti. Fullyrðingar hinna um að bjórsala mundi draga úr áfengisnotkun hafa reynst rangar.

Fleira hefur verið gert á undanförnum árum sem breytir hinni opinberu áfengismálastefnu stjórnvalda og stuðlar að aukinni notkun. Þar má minna á áhrifin af EES-samningnum sem gerir þá kröfur til okkar að breyta fyrirkomulaginu á ríkiseinkasölunni. Um þær breytingar var tekist á hér á vorþingi, breytingar á innflutningi, heildverslun og dreifingu á áfengi. Þær breytingar munu að mínu viti stuðla að aukinni neyslu eins og ævinlega gerist þegar menn hætta að líta á áfengi sem vöru sem þarf að umgangast með varúð og fara að meðhöndla hana sem hverja aðra markaðsvöru. Markaðslögmálin í þessu efni þýða ekkert annað en aukin neysla. Það hefur verið krafan á undanförnum árum að líta æ meira á áfengi sem hverja aðra markaðsvöru, eins og skýrast sést í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið þar sem lagt er blátt bann við því að meðhöndla áfengi með misjöfnum hætti eftir framleiðendum og innflytjendum o.s.frv. Það er vegna þess að Evrópusambandið skilgreinir þetta sem markaðsvöru. Öll þekkjum við þrýstinginn sem verið hefur í þá veru að leyfa auglýsingar á áfengi, bæði á opinberum vettvangi og annars staðar. Ýmsar leiðir hafa verið farnar til að fara í kringum hið opinbera bann á auglýsingum. Það er auðvitað vegna þess að framleiðendur og seljendur þrýsta mjög á um það að mega auglýsa vöruna. Þeir vita sem er að það muni auka söluna. Þess vegna stöndum við gegn því og reynum a.m.k. að halda sjó í þessum efnum.

Ég gat um kröfuna í frjálsræðisátt sem kallað er, og kröfurnar með samningnum við Evrópska efnahagssvæðið sem varðar innflutning, heildverslun og dreifingu og tekist var á um á vorþingi. Þegar eru farnar að koma fram háværar raddir og kröfur um að smásalan færist út í verslanirnar, að ríkiseinkasalan verði afnumin og áfengi verði selt eins og hver önnur vara í næstu kjörbúð. Sem dæmi má nefna samþykkt sem gerð var á aðalfundi Kaupmannasamtaka Íslands í maí sl. þar sem skorað er á yfirvöld að afnema lagaákvæði sem binda sölu á bjór og léttum vínum við einkasölu ríkisins, þannig að neytendur eigi þess kost að kaupa þessa vöru í matvöruverslunum um land allt, eins og segir á ályktuninni. Þetta er viðhorfið, þetta er þrýstingurinn sem kemur fram víða í þjóðfélaginu í þá veru að gata í sundur hina opinberu áfengismálastefnu, allt í þeim tilgangi að auka sölu og notkun, hvort sem þar er um að ræða áskoranir frá Kaupmannasamtökunum, öðrum samtökum eða frv. frá þingmönnum eins og þetta hér. Það hefur engan annan tilgang en þann að auka áfengisnotkun. Þingmennirnir verða að vera menn til að viðurkenna að það er það sem fyrir þeim vakir. Það er ekki hið gagnstæða, að draga úr áfengisnotkun.

[17:45]

Ég vil, virðulegi forseti, láta í ljósi verulega hryggð yfir því að þingmenn hafa glapist til þess að flytja frv. af þessum toga. Ekki endilega vegna þess að ég sé þeirrar skoðunar að allt sé óumbreytanlegt í áfengismálalöggjöf okkar, það er þvert á móti, heldur hitt að ég er á þeirri skoðun að breytingar sem menn hugsa sér að gera verða að rúmast innan þessarar stefnu og hafa þau áhrif eða a.m.k. að menn trúi því að þau hafi þau áhrif að verða til góðs en ekki ills. Kannski er einn mesti óvinurinn þessi árin hið ótrúlega útbreidda viðhorf í þjóðfélaginu sem er vinveitt áfengisnotkun. Það er því miður svo að það er um of útbreitt viðhorf að mínu mati, of viðurkennd samfélagsleg hegðun að nota áfengi. Á meðan hinir fullorðnu sem eru ábyrgir fyrir þessu viðhorfi bæta ekki úr hjá sér þá er ekki von á að það verði stórar breytingar á viðhorfi unga fólksins til batnaðar frá því sem nú er.

Ef menn vilja flytja frv. um þetta efni þá eiga menn að mínu viti að einblína á þetta atriði að breyta viðhorfi fullorðins fólks. Með því gætum við náð árangri sem skilaði sér niður eftir aldurshópunum. Með þessu frv. náum við engum árangri í þá veru. Það hryggir mig því að sjá þetta frv. hér.

Ég vil að lokum segja, virðulegi forseti, að hryggilegast þykir mér að sjá þingflokksformann Sjálfstfl. á þessu frv., mann sem er fyrirliði stærsta stjórnmálaflokks Íslands á Alþingi. Ég hafði vonast eftir því að sá flokkur hefði þann metnað að reka af sér það slyðruorð sem á honum hefur legið undanfarin ár að hann notaði vín til þess að laðaði til sín kjósendur og er hægt að nefna dæmi um það efni og hafa orðið blaðamál af eins og fyrir alþingiskosningarnar 1991. Við höfum því miður áþreifanleg dæmi um það í síðustu sveitarstjórnarkosningum í kaupstöðunum á Vestfjörðum að ungliðar Sjálfstfl. gerðu beinlínis út á áfengi til að ná til ungs fólks, bjóða því heim til sín í heimahús í bjórveislur og annað slíkt. Það er ekki sæmandi stjórnmálaflokki á Íslandi sem vill láta taka sig alvarlega í þessum efnum að einstakir menn innan hans beiti þessum aðferðum í stjórnmálabaráttunni. Ég hafði vonast eftir því að þingflokksformaður Sjálfstfl., sem er gegn og mætur maður að mínu viti, hefði haft metnað til þess að taka á þessu vandamáli en ekki að búa til annað með tillöguflutningi á Alþingi.