Áfengislög

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 17:51:59 (1068)

1995-11-17 17:51:59# 120. lþ. 34.12 fundur 144. mál: #A áfengislög# (aldursmörk) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[17:51]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki nógu gott hjá hv. þm. Geir H. Haarde að segja: Ég trúi því ekki að neysla muni aukast þó áfengiskaupaaldurinn lækki um tvö ár. Það er ekki nógu gott þegar fyrir liggja vísindalegar sannaðar staðreyndir um hið gagnstæða. Menn verða að taka mark á staðreyndum sem liggja fyrir og eru gefnar út af ekki óvirðulegri stofnun en Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Þetta er tiltölulega einfalt mál. Aukið aðgengi að áfengi þýðir aukna notkun. Það er staðfest. Það liggur líka fyrir og er staðfest að allmörg ríki í Bandaríkjunum lækkuðu áfengiskaupaaldurinn í upphafi áttunda áratugarins. Það liggur fyrir að í öllum þessum ríkjum komust menn að þeirri niðurstöðu að þetta jók áfengisnotkun. Þetta jók vandamálin sem leiða af áfengisnotkun og þetta jók verulega umferðarslys, þar með talin dauðaslys. Öll brugðust þau eins við sem er að hækka aldurinn aftur upp í 21 ár. Samkvæmt þessari skýrslu sem ég er með er áfengiskaupaaldur 21 ár í öllum 50 ríkjum Bandaríkjanna. Þetta eru staðreyndir. Og á staðreyndum eiga menn að grundvalla mál sitt en ekki á sandi.

Varðandi hins vegar upphafsorð þingmannsins þá þarf ég ekki að deila við hann um staðreyndir því það eru líka staðreyndir sem ég rakti, að vísu vægilega og hefði getað gert ítarlegri skil. Ég tel ekki ástæðu til þess að sinni. En ég vænti þess að þingmaðurinn íhugi þau orð sem ég lét falla í því efni því þau byggja á staðreyndum.