Áfengislög

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 17:56:32 (1070)

1995-11-17 17:56:32# 120. lþ. 34.12 fundur 144. mál: #A áfengislög# (aldursmörk) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[17:56]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :

Virðulegi forseti. Það er auðvitað fyrir neðan allar hellur þegar menn sem eru í pólitík taka upp á því að fara að notfæra sér áfengi til að laða að sér kjósendur. Því miður eru dæmi um það og ég get minnt hv. þm. Geir H. Haarde á að þessi mál komust í hámæli fyrir alþingiskosningarnar 1991 m.a. í framhaldi af boði ungra sjálfstæðismanna í Valhöll. Það eru fleiri atvik af þessu tagi þar sem ungir sjálfstæðismenn hafa boðið til sín kjósendum, jafnvel undir áfengiskaupaaldri og veitt þeim áfengi og það jafnvel ótæpilega. (GHH: Þetta er ósæmandi fyrir ... ) Þingmaðurinn á auðvitað að beita sér fyrir því að flokkur hans eða einstaka menn innan hans ástundi ekki vinnubrögð af þessu tagi. Það er nákvæmlega það sem ég átti við og tala þar út frá fullkomnum staðreyndum. Það þýðir ekkert fyrir þingmanninn að byrsta sig í þeim efnum.

Ég vænti þess að hann og aðrir sem þessi mál flytja og aðrir sem um málið fjalla gæti þess í umfjöllun um efni málsins að taka mark á staðreyndum en það er sammerkt með málflutningi hv. þm. Geirs H. Haarde og Jóhönnu Sigurðardóttur að þau neita ítrekað að taka mark á staðreyndum. Og þegar þau geta ekki borið staðreyndirnar til baka þá flýja þau í það vígi að segja: Þetta á ekki við hér á landi. Þá spyr ég: Hvar eru rannsóknirnar sem eiga að staðfesta að það eigi ekki við hér á landi?