Áfengislög

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 17:58:37 (1071)

1995-11-17 17:58:37# 120. lþ. 34.12 fundur 144. mál: #A áfengislög# (aldursmörk) frv., ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[17:58]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég er sammála flutningsmanni þessa frv. um að það er þversögn og tvískinnungsháttur í löggjöfinni um réttindi og skyldur þegnanna. En það er líka þversögn og tvískinnungsháttur í röksemdafærslunni varðandi frv. þetta. Flutningsmaður sagði ,,erlendis þar sem áfengi er umgengist af skynsemi``. Ég á svolítið erfitt með að skilja á hvern hátt við umgöngumst áfengi af skynsemi. Vegna þess að við þekkjum þær tölulegar staðreyndir um að tíundi hver maður sem neytir áfengis verður brennivíninu að bráð. Ég hef dvalið erlendis sem ungur maður um tvítugt, í Danmörku þar sem áfengi er væntanlega umgengist af ,,mikilli skynsemi`` og ég veit að þar er áfengisneysla mjög mikið vandamál. Þeir umgangast að vísu áfengi öðruvísi en við en þar er brennivínið mikið böl eins og reyndar hér líka. Mig langar bara til að spyrja flutningsmann hvort hún telji virkilega að ungmenni hætti að falsa skilríki eða hvort miðbæjarvandamálið hverfi eða landasalan hverfi ef þetta frv. fer í gegn. Ég er alveg viss um að nánast ekkert breytist við þetta. Breytingin verður fyrst og fremst fólgin í því að aldur neytenda áfengis lækkar. Aldur neytenda áfengis lækkar einfaldlega vegna þess að 18 ára ungmenni umgangast yngra fólk heldur en t.d. tvítug ungmenni gera.

Hins vegar get ég alveg fallist á það að 18 ára ungmenni megi kaupa áfengi á skemmtistöðum, kaffihúsum og krám vegna þess að lögum samkvæmt má þetta unga fólk vera þarna inni. Og mér finnst fáránlegt að leyfa því unga fólki ekki að kaupa áfengi inni á þessum stöðum. Hins vegar, þegar komið er út í samfélagið, finnst mér reglan um tvítugsaldurinn ljómandi góð á þeirri forsendu að 18 ára ungmenni umgangast yngra fólk en þeir sem tvítugir eru.

Mér finnst líka röksemdafærslan um það að unga fólkið hafi verið að senda bréf og erindi til hv. þm. vegna þessa frv., til þess að gera léttvæg. Sjálfur umgengst ég mikið af ungu fólki og hef reyndar haft atvinnu af því í gegnum árin að vinna með ungu fólki, fólki akkúrat á þessum aldri. Unga fólkið vill hafa mjög skýrar reglur. Unga fólkið vill hafa ákveðinn aga, það er alveg ljóst. Það er vandamál í þessu landi hvað við reynum alltaf að sigla fram hjá lögum og reglum. Hér er agaleysi og það á ekki bara við um unga fólkið. Við berum ábyrgð á þessu fullorðna fólkið. Mér finnst líka þegar við erum að tala um að við séum að stimpla allt ungt fólk eins í þessu sambandi þá er það auðvitað bara eins og hver önnur orð sem notuð eru. Það er auðvitað mjög mismunandi hvernig unga fólkið okkar umgengst áfengi, nákvæmlega eins og með okkur sjálf. Þar er enginn munur. En það er líka staðreynd að eftir því sem unga fólkið byrjar fyrr að neyta áfengis þess meiri líkur eru á því að það verði brennivíninu að bráð.

Það væri í raun mun göfugra, herra forseti, að við þingmenn reyndum að beita okkur, í samráði við SÁÁ og unga fólkið í landinu, fyrir frv. sem hefði að markmiði að draga úr áfengisneyslu með forvarnastarfi vegna þess að það væri þjóðfélaginu til góðs.