Áfengislög

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 18:03:46 (1072)

1995-11-17 18:03:46# 120. lþ. 34.12 fundur 144. mál: #A áfengislög# (aldursmörk) frv., KF
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[18:03]

Katrín Fjeldsted:

Forseti. Ég er frekar jákvæð gagnvart þessu frv. Kannski á sama hátt og ég var jákvæð gagnvart því að lögleiða bjór á sínum tíma. Ég held að neysla aukist ekki við þetta fremur en við innleiðingu bjórs, það verði frekar breyting. Það er erfitt að segja til um það hvort áfengisneysla hafi aukist þegar vantar mjög stóra stærð í málið sem er statistikkin yfir það hvað er mikið drukkið af bruggi og landa. Hana höfum við ekki þannig að tölur geta blekkt illilega.

Mér finnst samt galli á röksemdafærslunni í greinargerðinni. Mér finnst það í rauninni ekki vera rök að ákvæði áfengislöggjafarinnar séu óvirk. Mér finnst það ekki rök í sjálfu sér. Það er mikilvægt að framfylgja lögum hvort sem um áfengi er að ræða eða útvistartíma barna eða hvað það er. Það skiptir mjög miklu máli að gera löggæslunni kleift að framfylgja þessum lögum. Það má hrósa lögreglunni fyrir það sem áunnist hefur í því.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin segir að löggjöf skipti máli og ég veit að það er alveg rétt og að aukið aðgengi þýði aukna notkun. Þá verður maður að hugsa við hvað er miðað. Aukið aðgengi miðað við hvað? Við erum að tala hér um aukið löglegt aðgengi. En við verðum að miða það við hið mikla ólöglega aðgengi sem fyrir hendi er. Það er raunhæfur samanburður.

Hv. síðasti ræðumaður sagði að brennivín væri böl. Ég er alveg sammála honum í því. Út yfir viss mörk er það böl. En það er líka sagt að hóflega drukkið vín gleðji mannsins hjarta. Ég er á því að það sé líka satt. Meira að segja hefur komið í fréttum að vínglas á dag geti aukið lífslíkur manna en ég veit nú ekki hvort menn ættu endilega að fara að fara ofan í þá statistikk hér.

Forvarnir voru nefndar hér einnig. Það er jú vitað að í lögum og í reglugerð um heilbrigðisþjónustu er tekið fram að heilsugæslunni sé skylt að sinna þessum forvörnum undir nafninu heilsuvernd, m.a. áfengis-, tóbaks- og fíkniefnavörnum. Ég verð að segja það að mér finnst skynsamlegt að efla heilsugæsluna, m.a. með því að leggja áherslu á forvarnir og gera henni það kleift. En aðalatriðið er þó það veganesti sem ungt fólk hefur með sér úr heimahúsum. Aðalatriðið er nefnilega ábyrgð foreldranna, að foreldrarnir kenni börnum sínum góða siði og sýni gott fordæmi. Þessu er ábótavant í okkar þjóðfélagi.

Fjölskyldustefna hefur oft verið nefnd í þessum þingsal og lýst eftir henni. Ég er þeirrar skoðunar að aðbúnaður og aðstæður fjölskyldna, atvinnumál og skólamál og öll möguleg slík stórmál sem má gagnrýna og eru vandamál í okkar þjóðfélagi, hafi áhrif á það veganesti sem þetta unga fólk hefur með sér úr heimahúsum.

Sterkustu rökin fyrir því að breyta aldursmörkunum úr 20 ára í 18 ára finnst mér þó vera að 18 ára fólk er að flestu leyti flokkað sem fullorðið fólk. Það má keyra bíl. Það má kjósa. Það má bjóða sig fram til sveitarstjórna, til Alþingis, reyndar ekki til forseta fyrr en það er 35 ára, en það má líka giftast og eignast börn sem er einhver mesta ábyrgð sem lögð er hverjum einstaklingi á herðar í þessu þjóðfélagi. Og mér finnst hægt að treysta þessu unga fólki til að hafa vit fyrir sér og sínu lífi ef foreldrarnir hafa staðið sig í uppeldinu. Þetta þarf að skoða nánar og hjálpa fólki í sínu foreldrahlutverki. Ég er jákvæð fyrir þessu frv., forseti.