Áfengislög

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 18:11:25 (1074)

1995-11-17 18:11:25# 120. lþ. 34.12 fundur 144. mál: #A áfengislög# (aldursmörk) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[18:11]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er tvennt sem mig langar til að taka hér upp. Það fyrra er sú könnun sem vitnað var til að unnin hefði verið á vegum geðdeildar Landspítalans og ræðumaður taldi að væri kannski ekki nægilega nákvæm þar sem vantaði inn í upplýsingar um ólöglega sölu. Þá vil ég upplýsa hv. þm. um að þessi könnun var byggð á því að unglingarnir sjálfir svöruðu skriflegum erindum um áfengisnotkun sína þannig að það er fyrir því séð. Þessi niðurstaða er alveg ótvíræð. Hún er sú að með tilkomu bjórsins hafi áfengisnotkun aukist. Hún hafi sérstaklega aukist hjá þeim sem drukku áður en bjórsala var leyfð. Þeir höfðu nær tvöfaldað sína áfengisnotkun og ekki bara bætt við bjórneyslu sem ekki var áður heldur líka aukið drykkju á sterkum vínum. Þetta er bara statistikk sem liggur hér fyrir og ég vænti þess að þingmaðurinn muni kynna sér það.

Hitt er athugasemd sem þingmaðurinn gerði um að það væri þversögn í því að takmarka aðgengi 18 ára að víni þegar þeir nytu ýmissa borgaralegra réttinda. Ég vil minna þingmanninn á að ekki bara 18 ára unglingar heldur allir menn búa við þá löggjöf að aðgengi þeirra er takmarkað að ýmsum hlutum og ekki bara þegar þeir eru ungir heldur líka alla ævi meðan löggjöfin varir. Sérstaklega á þetta við um áfengislöggjöfina að aðgengi allra er takmarkað að áfengi samkvæmt þeim lögum sem í gildi eru. Þar á ég við hluti eins og opnunartíma og annað slíkt. Það að aðgengi sé takmarkað á einhverju stigi er engin mótsögn. Það er niðurstaða löggjafarþingsins á hverjum tíma að þetta sé vímuefni sem verði að setja löggjöf um sem byggist á boðum og bönnum. Það er bara bitur reynsla sem hefur leitt þjóðina til þessarar niðurstöðu.