Áfengislög

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 18:36:27 (1080)

1995-11-17 18:36:27# 120. lþ. 34.12 fundur 144. mál: #A áfengislög# (aldursmörk) frv., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[18:36]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get fullvissað hv. þm. um að það finnast fleiri raunsæir þingmenn í þessum sal en þeir fjórir sem standa að flutningi þessa frv. Það hygg ég að muni koma í ljós þegar þetta frv. kemur til atkvæða sem það gerir væntanlega á þessu þingi þegar við höfum farið ítarlega yfir alla þætti þessa máls, rök með og á móti.

En það er auðvitað það sama eins og áðan að hv. þm. hlustar ekki. Ég hafi engar tillögur aðrar en þær að afnema þessi boð og bönn. Ég hef talað um að efla forvarnir, ég hef talað um að við gætum beint sjónum okkar miklu meira að þessum aldurshópi, að aldurshópnum frá 13 eða 14 ára til 18 ára ef aldursmörkin yrðu lækkuð. Af hverju í ósköpunum er svona mikil áfengisneysla hjá þessum hópi eins og haldið hefur verið fram þó við höfum þessa áfengislöggjöf? Það er bara að berja hausnum við steininn að segja að þetta unga fólk --- næstum eins og það vill --- eins og kom fram könnuninni sem ég benti á í framsöguræðu minni að ef unga fólkið vill fá sér áfengi, þá var verið að tala um framhaldsskólana, þá getur það útvegað sér það samdægurs. Mér fannst ekki falleg lesning sem kom fram í skýrslu borgaryfirvalda sem lýsir dreifikerfinu á landa inni í framhaldsskólum og kannski inni í grunnskólunum. Það einmitt það sem við gætum komið í veg fyrir að draga úr landasölunni sem hér hefur verið nefnd, draga úr því að landasalarnir hafi aðgang að þessu unga fólki til að selja þeim þennan landa sem er miklu hættulegri en áfengið. Rökin í þessu máli, hvernig sem þetta er lagt á vigtina, mæla með þessari breytingu.

Ég frábið mér að hlusta á það hér að við sem tölum fyrir þessari breytingu lokum augunum fyrir þeim vanda sem við er að glíma í þessu efni þó við flytjum þetta mál. Við viljum fara aðrar leiðir, skynsamlegri leiðir, raunhæfari leiðir og viðurkenna að þessi löggjöf er úrelt og stenst ekki.