Lokun þverbrautar á Patreksfjarðarflugvelli

Mánudaginn 20. nóvember 1995, kl. 15:04:40 (1085)

1995-11-20 15:04:40# 120. lþ. 35.1 fundur 80#B lokun þverbrautar á Patreksfjarðarflugvelli# (óundirbúin fsp.), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur


[15:04]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég hygg að þverbrautin hafi verið lokuð síðan 1989. Það er rétt að krossar hafa verið settir upp við endann á henni en þetta er stutt braut sem er í samræmi við kröfur Alþjóðaflugmálastofnunarinnar. Á hinn bóginn liggur fyrir að í neyðartilvikum er hægt að opna brautina og verða gerðar ráðstafanir til þess en m.a. þegar bundið slitlag var lagt á flugvöllinn á Patreksfirði myndaðist þar brún. Ég hygg að ef til þess kemur að nota þurfi brautina og snjóflóð hafa fallið verði ekkert því til fyrirstöðu að opna hana en hún er léleg og hefur ekki verið fjármagn til þess að gera hana sambærilega að gæðum við löngu brautina.

Ég hygg að hér sé ekki neitt nýtt á ferðinni. Þessi braut hefur verið lokuð svo árum skiptir.

Ég minni líka á að mjög góður vegur er nú kominn yfir Hálfdán. Ég hygg að það sé bundið slitlag frá Bíldudal til Patreksfjarðar, upphleyptur vegur, og þar er einnig flugvöllur á Bíldudal sem er einatt opinn þegar Patreksfjarðarflugvöllur er lokaður. Ég hef upplifað að hafa orðið að lenda á Patreksfirði af því að lokað var á Bíldudal svo að það er sennilega á báða vegu. Ég vonast til að þetta svar sé fullnægjandi en það er síður en svo að menn ætli sér að reyna að amast við því eða koma í veg fyrir það að þessi flugvöllur verði notaður í neyðartilvikum.