Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna

Mánudaginn 20. nóvember 1995, kl. 15:10:02 (1088)

1995-11-20 15:10:02# 120. lþ. 35.1 fundur 81#B Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna# (óundirbúin fsp.), SvG
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur


[15:10]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir þessi svör. Ég tel að þau séu mjög mikilvæg. Ég tel að ákvörðun um það að Íslendingar sækist eftir sæti í öryggisráðinu við tækifæri mundi styrkja utanríkisþjónustuna í heild og efla metnað hennar og starfsöryggi. Ég bendi á í þessu sambandi að einmitt vegna þeirra tæknibreytinga sem hafa orðið eru möguleikar á því að gegna þessum skyldum okkar við öryggisráðið ef til kæmi með minni mannafla en áður var gert ráð fyrir.

Þeir starfsmenn utanríkisþjónustunnar, sem ég hef rætt við, telja að það væri jafnvel hægt að sinna þessum skyldum með tveimur mönnum, þ.e. einum sem væri stöðugt á vakt og öðrum sem væri í New York þar sem aðalstöðvar Sameinuðu þjóðanna eru þannig að ekki er um að ræða verkefni sem Ísland ætti ekki að geta séð tiltölulega vel fram úr. Ég tel að sú yfirlýsing sem kom fram hjá hæstv. forsrh. áðan sé mikilvægt skref í rétta átt í þessu máli.