Reglur um endurnýjun og úreldingu fiskiskipa

Mánudaginn 20. nóvember 1995, kl. 15:15:25 (1092)

1995-11-20 15:15:25# 120. lþ. 35.1 fundur 83#B reglur um endurnýjun og úreldingu fiskiskipa# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur


[15:15]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég beini máli mínu til sjútvrh. vegna ummæla sem höfð hafa verið eftir hæstv. ráðherra, m.a. í tengslum við nýlega haldinn aðalfund LÍÚ, og varða hugsanlegar breytingar á reglum um úreldingu eða endurnýjunarskilmála fiskiskipa. Skilja hefur mátt á hæstv. ráðherra að það komi til greina að slaka á kröfum eða jafnvel fella niður þær kröfur sem í gildi eru um að taka þurfi úr notkun sömu rúmlestatölu í fiskiskipi á móti hverri nýrri rúmlest sem kemur inn við endurnýjun. Þessi ákvæði voru m.a. fest í lög við síðustu endurskoðun viðkomandi laga á síðasta þingi.

Það er óþarfi að fjölyrða um það hversu óheppilegt er að einhver óvissa ríki um tilhögun þessara mála vegna þeirra ákvarðana sem forsvarsmenn fyrirtækja þurfa að taka og varða mikla fjármuni sem hér geta verið í húfi. Vegna þessara ummæla og í framhaldi af ályktun á aðalfundi Landssambands ísl. útgerðarmanna hefur þegar skapast nokkur óvissa um framtíðina í þessum efnum sem torveldar mjög ákvarðanatöku stjórnenda fyrirtækja og er illt við það að búa. Ég held að það sé því mjög mikilvægt að hæstv. sjútvrh. tali alveg skýrt í þessum efnum um áætlanir eða áform ef einhver eru um breytingar og þá í hvaða átt. Ég leyfi mér því að spyrja hæstv. sjútvrh.:

Í fyrsta lagi: Telur hæstv. sjútvrh. ekki óheppilegt að óvissa ríki um þessi mál?

Í öðru lagi: Eru áformaðar á vegum hæstv. ríkisstjórnar eða hæstv. ráðherra einhverjar breytingar í þessum efnum? Ef svo er, þá hverjar og hvenær munu þær koma til framkvæmda?

Getur hæstv. ráðherra við þetta tækifæri eða á allra næstu dögum gert þannig grein fyrir málinu að þeirri óvissu sem nú hefur skapast verði eytt?