Reglur um endurnýjun og úreldingu fiskiskipa

Mánudaginn 20. nóvember 1995, kl. 15:17:20 (1093)

1995-11-20 15:17:20# 120. lþ. 35.1 fundur 83#B reglur um endurnýjun og úreldingu fiskiskipa# (óundirbúin fsp.), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur


[15:17]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég er alveg sammála hv. 4. þm. Norðurl. e. um að það er mjög óheppilegt að um atriði eins og þetta sé óvissa. Ég hef verið þeirrar skoðunar að þetta ákvæði væri tímabundið vegna þess að í reynd ætti það að vera svo að einstakar útgerðir ættu að bera ábyrgð á fjárfestingum sínum og ríkið ætti ekki að þurfa að hafa þar hönd í bagga. En hitt er annað mál að það atriði sem ég tel að menn þurfi að hafa í huga fyrst og fremst við núverandi aðstæður er að við vitum að við búum við talsverðan vanda vegna þess að fiski er hent og það á ekki síst við þegar um er að ræða skip með ónógar aflaheimildir. Við slíkar aðstæður, meðan við höfum ekki náð tökum á þeim vanda sé ég veruleg tormerki á að breyta þessari reglu þó það ætti að vera meginregla að útgerðarmenn beri ábyrgð á fjárfestingum sínum.

Við höfum ekki tekið endanlega ákvörðun í þessu álitaefni. Það hafa ekki verið uppi í ráðuneytinu nein sérstök áform um breytingar, en ég vænti þess að við getum kveðið á um það innan fárra daga hver niðurstaðan verður. Auðvitað munum við ræða við hagsmunasamtök bæði sjómanna og útvegsmanna sem hafa verið að senda okkur ályktanir að undanförnu um þeirra tillögur og ég vona að að því er þetta atriði varðar verði unnt að eyða allri óvissu innan nokkurra daga.