Reglur um endurnýjun og úreldingu fiskiskipa

Mánudaginn 20. nóvember 1995, kl. 15:19:35 (1094)

1995-11-20 15:19:35# 120. lþ. 35.1 fundur 83#B reglur um endurnýjun og úreldingu fiskiskipa# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur


[15:19]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir svörin. Aðalatriði málsins er út af fyrir sig ekki persónulegar skoðanir hæstv. sjútvrh. eða þá t.d. þess sem hér stendur. Ég hef sennilega manna oftast á undanförnum árum gagnrýnt margt í framkvæmd þessara vitlausu reglna sem í gildi hafa verið sem leitt hafa til handahófskenndra og blindra uppkaupa út úr flotanum eða kröfu um úreldingu sem ekki tekur tillit til þess hvaða skipaflokkur á í hlut. Nærtækasta dæmið um það hvernig þessar reglur hafa torveldað og torvelda endurnýjun er til að mynda sú staðreynd að nánast allur nótaskipaflotinn er orðinn úreltur, en engu að síður eru gerðar sambærilegar kröfur um afkastaminnkun á móti endurnýjun þar eins og annars staðar.

En það sem mestu máli skiptir er að stjórnendur fyrirtækja og þeir sem þurfa að bera ábyrgð á miklum fjárfestingum viti að hverju þeir ganga í fyrirsjáanlegri framtíð. Það er gersamlega ótækt að fyrirtæki sem eru til að mynda að endurnýja nú í dag og kosta til þess e.t.v. 100 millj. kr. ef í hlut á stór togari, megi e.t.v. búast við því að eftir hálft ár eða eitt ár verði þessar reglur felldar úr gildi og þeir sem þá fara að endurnýja sleppi með öllu við þennan kostnað. Þannig er ekki hægt að mismuna aðilum og því hvet ég hæstv. sjútvrh. eindregið til þess að koma þessu máli algerlega á hreint innan fárra daga.