Raforkusala til garðyrkjubænda

Mánudaginn 20. nóvember 1995, kl. 15:22:41 (1097)

1995-11-20 15:22:41# 120. lþ. 35.1 fundur 84#B raforkusala til garðyrkjubænda# (óundirbúin fsp.), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur


[15:22]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Vegna þessarar fyrirspurnar vil ég upplýsa það að fyrir nokkru síðan gengu á fund minn fulltrúar Sambands garðyrkjubænda og ræddu ýmsa þætti starfsskilyrða þessarar atvinnugreinar. Eitt af því sem þeir töluðu um var samkomulag sem hafði verið gert milli þeirra og ég hygg Rafmagnsveitna ríkisins á seinasta ári um eftirgjöf á raforkuverði. Við komum okkur saman um að setja starfshóp til þess að líta á þessa rekstrarþætti. Ég tek undir það með fyrirspyrjanda að vafalaust er það mjög mikilvægt að sá samningur sem gerður var í fyrra a.m.k. standi og e.t.v. verði gengið lengra en þá var gert ef þess er nokkur kostur til þess að mæta þeirri tækni sem garðyrkjubændur hafa tekið upp í auknum mæli, að nota lýsingu í sinni atvinnugrein og hefur örugglega haft mikla þýðingu fyrir starfsemina. Ég er tilbúinn til þess að gera það sem í okkar valdi stendur til þess að þarna náist viðunandi samningar, en hefði þó álitið að rétt væri að sá starfshópur sem nýlega hefur verið skipaður fjallaði um málið og kæmi síðan með sínar niðurstöður eða tillögur um málsmeðferð til ráðherra eða ráðuneytisins og við ynnum síðan úr því í framhaldi af slíkri forvinnu.