Síldarsamningar við Noreg

Mánudaginn 20. nóvember 1995, kl. 16:03:32 (1110)

1995-11-20 16:03:32# 120. lþ. 36.91 fundur 91#B síldarsamningar við Noreg# (umræður utan dagskrár), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur


[16:03]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Vegna síðustu ummæla hv. 15. þm. Reykv. er rétt að rifja upp að Íslendingar og Færeyingar sömdu um að ákveða 250 þúsund lesta kvóta fyrir sig. Það var hvorki um að ræða neina afgangsstærð eða neitt annað í því efni.

Hv. þm. talar um að allt sé í uppnámi af því að engir samningar hafi náðst. Auðvitað er hægt að ná samningum ef menn vilja ganga að hvaða kröfum sem er. Samningar hafa ekki náðst vegna þess að það hefur ekki fundist sá flötur sem báðir aðilar eru sáttir við. Ég ætla ekki að snúa út úr fyrir hv. þm. og halda því fram að þessi skilyrðislausa krafa um að það séu komnir samningar um alla hluti þýði það að hann vilji gefa eftir bara til þess að ná samningum. Ég ætla aðeins að varpa ljósi á þá staðreynd að það þarf tvo til að semja í samningum eins og þessum.

Ég er mjög fús til þess, hér eftir sem hingað til, að eiga gott samráð við bæði utanrmn. og úthafsveiðinefnd og tel reyndar mjög mikilvægt og brýnt að þingið og ríkisstjórnin stilli saman strengi sína í þessum efnum. Hér hefur verið sagt að það hafi verið misbrestur á því hvernig ríkisstjórnin hefur haldið á málinu. Meginstefna ríkisstjórnarinnar í þessu máli hefur verið sú að strandríkin fari með stjórn á þessum stofni. Eru menn að gera athugasemdir við þá meginstefnu? Við höfum lagt á það áherslu að semja á grundvelli þeirrar sögulegu dreifingar sem fyrir liggur. Er einhver uppi með ágreining um kröfugerð á þeim grundvelli? Ég hef a.m.k. ekki heyrt að slíkur ágreiningur væri settur fram með rökstuddum hætti.

Herra forseti. Að sjálfsögðu er nauðsynlegt að menn ræði stöðu málsins í dag og framhald verði á viðræðum, bæði í utanrmn. og í úthafsveiðinefnd.