Sveitarstjórnarlög

Mánudaginn 20. nóvember 1995, kl. 16:09:27 (1112)

1995-11-20 16:09:27# 120. lþ. 36.6 fundur 126. mál: #A sveitarstjórnarlög# (atkvæðagreiðsla um sameiningu sveitarfélaga) frv., Frsm. minni hluta BH
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur


[16:09]

Frsm. minni hluta félmn. (Bryndís Hlöðversdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti minni hluta félmn. um frv. til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 8/1986, með síðari breytingum, en í honum er auk mín Kristín Ástgeirsdóttir, formaður nefndarinnar. Eins og fram kom í flutningi frsm. fyrir meirihlutaáliti nefndarinnar hefur nefndin haft til meðferðar frv. til laga sem felur í sér svæðisbundna breytingu til bráðabirgða á 109. gr. laga nr. 8/1986. 1. mgr. 109. gr. hljóðar svo eins og hún er í dag, með leyfi forseta:

,,Sveitarfélag verður eigi sameinað öðrum sveitarfélögum nema fleiri kjósendur í atkvæðagreiðslu skv. 108. gr. séu fylgjandi sameiningu en andvígir.``

Í 108. gr. er fjallað um samstarfsnefndir um sameiningu sveitarfélaga og þar segir að þegar tvær eða fleiri sveitarstjórnir hafa ákveðið að kanna möguleika á sameiningu skuli þær kjósa samstarfsnefnd til að annast athugun málsins. Skal hvor eða hver sveitarstjórn kjósa tvo fulltrúa eða fleiri í nefndina eftir samkomulagi. Nefndin skal starfa í samráði við ráðuneytið og skal það láta henni í té þá aðstoð er það telur nauðsynlega og úrskurða um vafaatriði er upp kunna að koma.

Þegar samstarfsnefnd hefur skilað áliti sínu um sameiningu skulu viðkomandi sveitarstjórnir taka málið á dagskrá og að lokinni umræðu sveitarstjórna skal síðan fara fram atkvæðagreiðsla innan sveitarfélaganna um sameiningu. Svona eru reglurnar í dag.

Samkvæmt tillögu þeirri til breytinga sem hér liggur fyrir verður sveitarfélögunum á Vestfjörðum heimilt að sameinast ef sú tillaga sem liggur fyrir um sameiningu sex sveitarfélaga verður samþykkt í 2 3 sveitarfélaganna og að því tilskildu að í þeim búi 2 3 íbúanna. Er viðkomandi sveitarfélögum heimilt að ákveða sameiningu þeirra sveitarfélaga sem samþykkt hafa sameininguna, án þess að leggja þurfi það sérstaklega fyrir kjósendur.

Ef tillagan verður felld í einu eða tveimur sveitarfélögum eru ýmsir möguleikar á samsetningu nýs sveitarfélags og niðurstaðan kann að verða einhver allt önnur en kosið var um. Þá er ljóst vegna skilyrðisins um 2 3 íbúafjölda að Ísafjörður leikur lykilhlutverk í sameiningunni. Að óbreyttum lögum þyrfti að leggja nýja tillögu um sameiningu fyrir kjósendur en eins og fram kemur í áliti samstarfsnefndarinnar gæti slíkt tafið sameiningu verulega.

Minni hluta nefndarinnar þykir orka tvímælis að veita slíka svæðisbundna heimild í lögum um sveitarfélög og eðlilegt sé að um þessi mál gildi ein lög fyrir landið allt.

Það er mikilvægur þáttur kosningarréttarins að kjósendur viti fyrir víst hvað þeir eru að kjósa um og ákvæði sem heimila sveigjanleika í þeim efnum er varasamt. Það er lýðræðislegur réttur íbúanna á þessu svæði sem og í öðrum landshlutum að fá að greiða atkvæði um nýja tillögu, verði hin fyrri felld. Það liggur hins vegar fyrir skýr vilji allra sveitarstjórna á umræddu svæði í þessum efnum og hafa þær samþykkt tillögu um sameiningu samhljóða. Sökum þeirrar beiðni, og að teknu tilliti til þeirra raka sem koma fram í beiðninni og talin voru upp í áliti meiri hlutans, vilja undirritaðir nefndarmenn ekki greiða atkvæði gegn frv., en munu sitja hjá við afgreiðslu þess.

Undir nál. minni hlutans skrifa Kristín Ástgeirsdóttir og Bryndís Hlöðversdóttir.